135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:11]
Hlusta

Ásta Möller (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er komið til atkvæðagreiðslu frumvarp til laga um sjúkratryggingar. Það felur í sér að sett er á laggirnar ný stofnun sem sjái um framkvæmd sjúkratrygginga, semji um og annist kaup og endurgjald fyrir heilbrigðisþjónustu, auk þess að hafa eftirlit með gæðum og árangri þjónustunnar.

Frumvarpið felur í sér kostnaðargreiningu á heilbrigðisþjónustu sem m.a. fagaðilar og stofnanir hafa kallað eftir um árabil og Íslendingar verið hvattir til að taka upp, m.a. af OECD og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Frumvarpið felur hins vegar ekki í sér breytingar á réttindum sjúkratryggðra enda er það verkefni sem verður að skoða í heild sinni en verður ekki tekið í bútum eins og hv. þingmenn Vinstri grænna leggja til með breytingartillögum sínum sem er reyndar aðferðafræði sem þeir hafa gagnrýnt gegnum tíðina. Því mun meiri hluti heilbrigðisnefndar greiða atkvæði á móti breytingartillögum 1. minni hluta heilbrigðisnefndar í breytingartillögum þeirra við frumvarpið í atkvæðagreiðslum hér á eftir er varða breytingar á réttindum sjúkratryggðra og tekur m.a. til breytinga á 20., 22., 28., 29. og 31. gr. frumvarpsins. Að öðru leyti mun ég gera grein fyrir sjónarmiðum þingmannameirihluta heilbrigðisnefndar við breytingartillögum hv. þingmanna Vinstri grænna við einstakar greinar.