135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:36]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Mér finnst rétt að ég geri grein fyrir atkvæði mínu og það er byggt á því, eigum við ekki að segja sömu skoðun og hv. þm. Guðni Ágústsson hafði á frumvarpinu, það er að lesa það frá A til Ö. Ég setti þetta sérstaka atriði varðandi breytingartillögu minni hlutans í samhengi við það er lýtur að starfsemi verkfræðinga. Annars vegar höfum við fagfélag verkfræðinga sem heitir Verkfræðingafélag Íslands og hins vegar stéttarfélag verkfræðinga sem heitir Stéttarfélag verkfræðinga. Ég sé það ekki fyrir mér í þeim verkum sem verkfræðingar eru að vinna að fagfélagið eða stéttarfélagið fari fram með samningagerð við ríkið eða sveitarfélög varðandi þau verk sem verkfræðingar eru að vinna að. En hins vegar hafa verkfræðingar annaðhvort í gegnum stéttarfélag sitt eða fagfélag tækifæri til að koma að sjálfseignarstofnunum og koma að fyrirtækjum sem lögaðilar til að gera samninga við ríki eða opinbera aðra aðila á markaði og í ljósi þess segi ég nei.