135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

skuld ríkisins við verktakafyrirtækið Impregilo.

655. mál
[15:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau voru út af fyrir sig upplýsandi og ég geri ekki lítið úr því að enn kunni að vera álitamál í þessu. Ég verð á hinn bóginn að segja að ég tel að ríkið hafi tekið og sé að taka mjög mikla áhættu á því að fara að lokum alveg, mér liggur við að segja, hörmulega illa út úr þessu máli. Ef ástæða þess að ekki er gengið til uppgjörs og ekki einu sinni borgað inn á skuldina er sú að menn ætla að reyna að hanga á því að að einhverjum hluta til geti Impregilo talist þarna launagreiðandi og því hafi verið réttmætt að krefja fyrirtækið um einhvern hluta skattanna er veikt að byggja allt málið á því ef það fellur á þann veg eins og nærtækt er að ætla af upphaflegum dómi Hæstaréttar að að uppistöðu til hafi þessir starfsmenn þegið laun sín frá starfsmannaleigunum eins og ég hélt að væru bara fyrirliggjandi upplýsingar því að þannig er fyrirkomulagið á þeim bæjum að starfsmannaleigan fær eina stóra ávísun frá aðalverktakanum og dreifir henni svo á reikninga frá starfsmönnunum, og gjarnan inn á bankareikninga erlendis ef ég veit rétt. Það aftur segir okkur að þann hluta skattskuldarinnar sem ríkið verður hugsanlega að endurgreiða Impregilo og ætlaði að reyna að endurkrefja starfsmannaleigurnar um geti nú orðið erfitt að sækja.

Mér sýnist allt stefna í að andvaraleysi fjármálaráðuneytisins í þessu máli og gagnrýnisleysi á sjálft sig, samanber þau arfavitlausu svör sem ég fékk ár eftir ár við mínum málefnalegum fyrirspurnum sem ég hafði undirbúið mjög vel og m.a. byggt á gögnum frá ríkisskattstjóra, þýði að hér geti verið í uppsiglingu verulegur löðrungur, svo að ekki sé sagt bara kjaftshögg, á ríkissjóð og núverandi og fyrrverandi fjármálaráðherra.