135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

staða landbúnaðarins og matvælaframleiðslu.

[15:51]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum stöðu landbúnaðarins eins og hún kemur fyrir sjónir nú í dag. Það eru vissulega vandamál sem hér hefur verið greint frá sem eru olíuverðshækkanir, kjarnfóðurs- og áburðarverðshækkanir og vaxtahækkanir. En ég held að það sé jafnvel hollt og nauðsynlegt okkur þegar við lítum yfir stöðu landbúnaðarins að líta nokkra áratugi til baka og fylgjast með því hver þróun landbúnaðarins hefur í raun verið í íslensku samfélagi.

Hér á landi hefur menntun aukist gríðarlega. Þær menntastofnanir sem við búum við, rannsóknarstofnanir, bændasamtök, búnaðarsamtök og búgreinafélög, eru gríðarlega öflug samtök bænda og skila inn í þessa atvinnugrein hámenntuðu fólki sem bæði stundar atvinnugreinina og er í stoðkerfi atvinnulífsins. Það er mjög mikilvægt. Jafnframt skulum við hafa hugfast að sú tækni sem notuð er á Íslandi í dag við landbúnaðinn, allt frá frumframleiðslu til úrvinnslu, er hátækni. Við erum að nota nánast sömu tækni og notuð er í Evrópu við búvöruframleiðslu okkar og það er mikil breyting frá því sem var hér fyrir 10, 15, 20 eða 30 árum þannig að við höfum möguleikana til að vinna áfram.

Allt frá því að EES-samningurinn og GATT-samningarnir sem síðan urðu WTO-samningarnir litu dagsins ljós í samfélagi okkar, á Alþingi og innan samtaka bænda hafa margar búgreinar búið sig undir það að taka við aukinni samkeppni og vera á markaði, á heimsmarkaði, og það hafa margar búgreinar gert. Það er einmitt vandi sumra sem ekki hafa fylgt þeirri stefnu og þeirri stöðu sem er raunverulega fram undan í íslenskum landbúnaði. Ég gæti nefnt hverja búgreinina á fætur annarri í búfjárrækt sem hefur stækkað bú, notað sér meiri tækni, lækkað verð, aukið heilbrigði o.s.frv. (Forseti hringir.) Jafnframt má nefna aðrar greinar, svo sem garðyrkju, en sumar greinarnar hafa staðið í stað og ekki fylgt (Forseti hringir.) þeirri þróun sem nauðsynlegt er að fylgja miðað við það lagaumhverfi sem við erum komin í (Forseti hringir.) og verðum í. (Gripið fram í.)