135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

örorkumats- og starfsendurhæfingarnefnd.

657. mál
[16:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég vil inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvenær megi vænta þess að örorkumats- og starfsendurhæfingarnefnd á vegum forsætisráðuneytisins ljúki störfum. Í kjölfar síðustu kjarasamninga var skipuð nefnd sem var skipuð fulltrúum frá forsætis-, fjármála-, heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytum. Reyndar gleymdist í upphafi vinnunnar að tryggja Öryrkjabandalaginu fulltrúa í þessa nefnd en eftir ábendingu frá Öryrkjabandalaginu var fulltrúa þess bætt í hana.

Þessi nefnd er mjög merkilegt fyrirbæri því að í henni er fjallað um mjög mikilvægt mál sem er örorku- og starfsendurhæfing og í raun og veru leitast við nýja nálgun, sem sagt að nálgast einstaklinginn með því að horfa frekar á hvað viðkomandi getur gert en hvað hann getur ekki gert. Mjög margir bíða óþreyjufullir eftir að nefnd forsætisráðherra skili af sér því að miklar væntingar eru bundnar við það starf sem þar fer fram.

Við höfum heyrt af því að þessi nefnd hafi jafnvel ekki hist svo vikum skipti og óljóst hefur verið um það hvenær nefndin muni skila af sér og þess vegna hef ég ákveðið að spyrja forsætisráðherra hvað líði störfum þessarar nefndar. Það er margt sem hangir á spýtunni, til að mynda getum við nefnt að 100 þús. kr. frítekjumark öryrkja mun að óbreyttu falla úr gildi um næstu áramót og hefur það verið tengt starfi þessarar nefndar. Við hljótum þar af leiðandi að spyrja okkur hvort menn muni framlengja þetta frítekjumark ljúki nefndin ekki störfum á tilsettum tíma eða hvað ríkisstjórnin ætli sér í þessum efnum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við fáum á hreint í þessari umræðu hvernig störfum þessarar mikilvægu nefndar er háttað og hvenær hæstv. forsætisráðherra telji að hún muni ljúka störfum.