135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[17:17]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það geti nú allir sem staddir eru í þessum sal, allir þingmenn og vonandi flestir landsmenn tekið undir það að ofbeldi, hvort sem það er kynbundið eða af öðrum toga, er slæmt og við erum öll á móti því. Ég held því að það sé enginn skoðanamunur hvað það varðar í tilviki meiri eða minni hluta allsherjarnefndar sem fjallar um þetta mál.

Ég skynja það svo að hv. þm. Alma Lísa Jóhannsdóttir sé þeirrar skoðunar að í tengslum við nálgunarbannsmálin sé ástæða til þess að breyta núverandi fyrirkomulagi þannig að ákvörðunin um nálgunarbann verði færð frá dómstólum til lögreglu. Ég fæ ekki betur séð en að við sem stöndum að meirihlutaálitinu séum reiðubúin til þess að skoða þann möguleika.

Hins vegar má ekki líta fram hjá því að það kom fram í störfum nefndarinnar að ef við mundum gera þessa kerfisbreytingu að óbreyttum lögum, færa ákvörðunarvaldið frá dómstólum eins og nú er og yfir til lögreglunnar, gæti það kostað þyngri og lengri málsmeðferð en núverandi kerfi mælir fyrir um. Ég er ekki að segja að það megi ekki breyta lögunum einhvern veginn og gera einhverjar tilfæringar í kerfinu sem gerðu það að verkum að slík breyting mundi hugsanlega leiða til hraðari málsmeðferðar.

Við fengum ábendingar frá héraðsdómurum og frá hæstaréttardómurum sem voru þess eðlis að nefndarmenn voru beðnir um að hugsa það betur og rannsaka nánar hvort sú breyting að færa ákvörðunartökuna frá dómstólum til lögreglunnar hefði þau tilætluðu áhrif sem hv. þingmaður telur (Forseti hringir.) að breytingin eigi að gera. Að fengnum slíkum viðvörunum (Forseti hringir.) hljótum við sem viljum taka ábyrga afstöðu í málinu að staldra (Forseti hringir.) við og leggja frekar til þá tillögu sem liggur fyrir í nefndaráliti okkar.