135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

heildarumhverfismat vegna framkvæmda á Bakka.

[10:35]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þetta frábæra tækifæri sem ég fæ hér til að eiga orðaskipti við hæstv. utanríkisráðherra, formann Samfylkingarinnar, um úrskurð umhverfisráðherra um heildstætt umhverfismat vegna framkvæmda á Bakka.

Það sem málið snýst um í dag, svo að ég reyni að gera langa sögu stutta, er það hvort framkvæmdaraðilinn geti haldið áfram með tilraunaboranir, með rannsóknarboranir, þrátt fyrir að hið heildstæða umhverfismat fari fram.

Í þessum stóli stóð hæstv. iðnaðarráðherra fyrir nokkrum dögum og sagðist ekki sjá neitt því til fyrirstöðu að þessar rannsóknir gætu farið fram þrátt fyrir heildstætt mat. Formaður iðnaðarnefndar hefur sagt að heildstætt mat muni ekki tefja framkvæmdir um einn einasta dag. Nú er stóra spurningin sú: Hvað segir formaður Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra, um þetta mál? Þar sem við vitum að hæstv. umhverfisráðherra átti samtal við formann sinn áður en hún felldi úrskurðinn hlýtur það að hafa verið skoðað gaumgæfilega af hálfu hæstv. ráðherra og formanns flokksins hvaða afleiðingar það hefði að fella þennan úrskurð.

Nú er spurningin þessi: Ætlar Samfylkingin að bera ábyrgð á því að framkvæmdum verði frestað um a.m.k. ár vegna þessa úrskurðar þar sem ekki verði hægt að fara í rannsóknirnar eða er hún tilbúin að standa með iðnaðarráðherranum og fullvissa okkur um að þessar rannsóknir geti farið fram þrátt fyrir að unnið sé að matinu? Þetta er sú spurning sem liggur í loftinu. Þetta er sú spurning sem allir eru að spyrja á Norðurlandi og víðar um land því að þetta er ekki bara spurning um að skapa störf á Norðurlandi, þetta er spurning um að auka hagvöxt á Íslandi sem fer mjög minnkandi.