135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

launamunur kynjanna.

[10:45]
Hlusta

Alma Lísa Jóhannsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna því auðvitað að hæstv. ráðherra tekur undir áhyggjur mínar af stöðu kvenna í samfélaginu. En það er eina ferðina enn verið að tala inn í framtíðina og segja að það sé ekki hægt að leysa málin núna, það þurfi að skoða þetta og setja þetta í nefnd o.s.frv. Ljósmæður eru verkfalli núna og ég geri mér fulla grein fyrir því að hæstv. ráðherra situr ekki við samningaborðið en hún er í ríkisstjórn og hún hefur vægi þannig að hún ætti að geta beitt sér þar.

Það er staðreynd að SFR og önnur félagasamtök hafa margítrekað bent á að það þurfi ekki fleiri nefndir. Það þarf að framkvæma. Það hefur ekkert komið frá ríkisstjórninni enn þótt hún hafi fengið margítrekuð tækifæri til þess að leiðrétta kjör kvennastétta. Verkalýðshreyfingin hefur margsinnis boðið upp á það í kjarasamningum og það er ekkert víst að slík tækifæri bjóðist aftur og ríkisstjórnin (Forseti hringir.) gerir ekki neitt.