136. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2008.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:24]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Það er ekki tími hefðbundins karps á milli stjórnar og stjórnarandstöðu í dag. Ástandið er einfaldlega of alvarlegt til að standa í ræðustóli Alþingis og stunda æfingar á sviði kappræðulistar. En ég heyri að síðasti ræðumaður bíður eftir „óvæntri lausn mála“, eins og hann orðaði það.

Hæstv. forseti. Nú þurfa allir að leggja sig fram um að sýna samstarfsvilja, tala í lausnum og framkvæma í takt við það. Aðgerðaleysi er ekki valkostur. Fram kom hjá forsætisráðherra að langbrýnasta verkefnið sé að ná verðbólgunni niður og það er vissulega rétt. En verðbólgan er ekki upphaf heldur afleiðing. Sérfræðingar halda fram að 40% af verðbólgunni stjórnist af gengi krónunnar og 20% af húsnæðismarkaðnum sem sé tekinn að kólna. Verðbólgan muni því verða fljót að hjaðna um leið og krónan staðnæmist eða taki að styrkjast. Þess vegna er stærsta spurningin þessi: Hvernig stöðvum við fall krónunnar?

Það þarf að auka traust á Íslandi, ekki aðeins út á við heldur einnig inn á við. Auka þarf þjóðartekjur með aukinni framleiðslu í landinu, aukinni verðmætasköpun og knýja fram meiri hagvöxt. Við þurfum áfram að auka nýtingu okkar á endurnýjanlegri orku til atvinnusköpunar, efla nýsköpun og menntun og hefja fyrir alvöru útflutning okkar á þeirri þekkingu sem við búum yfir á sviði orkumála. Við eigum að stefna að uppbyggingu en ekki tala niður allt frumkvæði eða leggja stein í götu eðlilegrar atvinnuþróunar.

Góðir áheyrendur. Á síðustu tíu árum hefur orðið bylting í menntun ungs fólks og sem dæmi má nefna að nú ljúka um 3.500 háskólaprófi á ári hverju. Öllum er ljóst að hin unga og glæsilega kynslóð getur sest að nánast hvar sem er í Evrópu. Með fjórfrelsinu svokallaða eru fáar hindranir í þeim efnum. Til þess að unga fólkið vilji búa á Íslandi þarf Ísland að vera samkeppnishæft og við þurfum svo sannarlega á þessu unga fólki að halda.

Ég skil vel að forsætisráðherra haldi til haga þeim árangri sem síðasta ríkisstjórn náði þegar Ísland skipaði efsta sæti á lista Sameinuðu þjóðanna um lífskjör þjóða. Fyrstu ár þessarar aldar verða lengi í minnum höfð vegna þess uppgangs sem þá ríkti. Aðstæður voru hins vegar þannig að margir fóru geyst og fáir trúðu á að veislunni gæti lokið. Auðvitað er þetta glæsilegur árangur og mikil verðmætasköpun átti sér stað. Sem dæmi má nefna að útflutningsverðmæti áls verður yfir 30% í ár af heildarútflutningstekjum. En þetta breytir ekki því að í dag búum við við frjálst fall krónunnar, háa verðbólgu og okurvexti. Við erum í vanda stödd.

Starf okkar stjórnmálamannanna snýst æ meir um að skapa Íslandi samkeppnishæft umhverfi, að íslensk stjórnvöld geti boðið upp á umhverfi sem stenst samkeppni við önnur Evrópulönd, ekki síst önnur Norðurlönd. Þannig er það ekki í dag og verður ekki á næstu árum nema strax á næstu dögum verði botninum náð og jafnvægi myndist í framhaldinu.

Ef marka má ræðu hæstv. ráðherra er sterkur vilji til að taka á vandanum. Stundum er sagt að viljann þurfi að sýna í verki. Ég ætla ekki að kenna ríkisstjórninni um lausafjárkreppuna í heiminum en ríkisstjórnir víða um heim hafa gripið til róttækra ráðstafana til að bregðast við þeim vanda. Haldnir eru næturfundir í þjóðþingum í því skyni og slíkt mundum við ekki telja eftir okkur að gera hér heldur. Það er lítið gagn í að koma verðbólgunni niður í verðbólgumarkmið Seðlabankans ef afleiðingarnar verða á sama tíma þær að atvinnulífið hrynur vegna fjármagnskostnaðar og fjölskyldurnar missa húsin sín. Þess vegna þarf nú þegar að hefja stýrivaxtalækkanir og viðurkenna að peningamálastefnan gengur ekki upp.

Góðir landsmenn. Þegar ég setti fram hugmyndir um upptöku evru meðal annars án aðildar að ESB fyrir tveimur og hálfu ári var það að sjálfsögðu vegna þess að ég taldi að til lengri tíma litið yrði íslenska krónan ekki gjaldgeng fyrir lítið hagkerfi á hinum opna innra markaði Evrópusambandsins. Strax í framhaldinu komu svör frá ESB um að aðild að Efnahags- og myntbandalaginu væri ófær án aðildar að ESB. Ef stjórnvöld hefðu borið gæfu til að fara strax þá að vinna að framtíðarlausn í gjaldmiðilsmálum stæðum við ekki frammi fyrir sama vanda og raun ber vitni í dag. En það er önnur saga.

Ég er ekki sammála þeim sem segja að umræðu um aðild að Evrópusambandinu eigi að skjóta á frest vegna þess að það leysi ekki vanda dagsins í dag að sækja um aðild. Mín skoðun er sú að við náum síður lausn á aðsteðjandi vanda ef við höfum ekki skýra framtíðarsýn. Samkvæmt könnunum er meiri hluti þjóðarinnar þeirrar skoðunar að við eigum að hefja aðildarviðræður að Evrópusambandinu en til þess að enginn vafi leiki á að sú sé raunin mundi boðuð tillaga Birkis Jóns Jónssonar og fleiri vera heppileg til að fá þau svör sem við þörfnumst. Á sama hátt og við gerðumst aðilar að innri markaði ESB á sviði viðskipta verðum við nú að gerast aðilar að innri markaðnum á sviði peninga- og fjármála. Það eru þung spor fyrir marga en hætt er við að verði þau ekki stigin verði þau enn þyngri síðar.

Við þær aðstæður sem nú ríkja getur enginn svarað áleitnum spurningum með því að segja einfaldlega: „Af því bara.“ — Ég þakka áheyrnina.