136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nokkuð viðamikil spurning. En ef maður dregur frá launa-, verðlags- og gengisliðina má segja að framlög til almannatrygginga, aðallega til elli- og örorkulífeyrisþega, hækki um 5 milljarða. Barna- og vaxtabætur um 2,5 milljarða. Framlag vegna örorkubyrði lífeyrissjóða um 1 milljarð. Fjárveiting vegna húsnæðismála um 1,5 milljarða og vegna fæðingarorlofs um 1,3 milljarða. Þetta eru þá tilfærsluframlög upp á 11 milljarða kr. Í rekstrarkostnaðinum er það til viðbótar þróunaraðstoð upp á 1,2 milljarða kr., vegna menntakerfisins upp á 2,5 milljarða kr. og útgjöld vegna sjúkratrygginga eru upp á 2,3 milljarða kr. Þá er rekstrarkostnaður vegna þjónustu á sviði heilbrigðis, öldrunar og málefna fatlaðra upp á 2,7 milljarða kr. eða samtals 9 milljarðar kr. Þannig að það eru þá samtals 20 milljarðar kr. í raunaukningu á útgjöldunum. Til viðbótar við það koma 13 milljarðar vegna vaxtagreiðslna en að stærstum hluta til koma vaxtatekjur þar á móti.