136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:53]
Horfa

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Við komum hér saman til að ræða fjárlög á afskaplega erfiðum og miklum viðsjártímum og það hefur verið lögð fram tillaga um að umræðunni verði frestað. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess úr því að þingmeirihluti og fjármálaráðherra telja rétt að umræðan fari fram nú er ekki annað að gera en að ganga til þess verks.

Það er auðvitað margt um þetta frumvarp að segja jafnvel þó svo að allar helstu forsendur í grunni þess séu mjög á hverfanda hveli. Á leiðinni yfir Hellisheiðina heyrði ég fyrir tilviljun meistaraskáldið Megas syngja í útvarpstækinu mínu texta sem byrjar á þessum orðum, ef ég man rétt: „Þú hjálpar ekki neinum með því að horfa bara á hann þó að þú eflaust meinir vel.“ Ég held að við stöndum frammi fyrir því hérna að það er ekki nóg með að ríkisstjórnin hafi verið aðgerðalaus, hún hefur ekki einu sinni fengist til að horfa á vandann eins og hann er. Fjárlagafrumvarpið sem hér er lagt fram er sögulega mjög merkileg heimild því það er heimild um þá afneitun sem við í stjórnarandstöðunni höfum glímt við. Með leyfi forseta vil ég lesa upphafsorð í I. kafla fyrri bókarinnar, þar sem segir orðrétt:

„Eftir eitt mesta hagvaxtarskeið um langt árabil er hagkerfið tekið að færast nær jafnvægi á ný.“

Það er ekki afsökun fyrir því að þetta skuli svona orðað að frumvarpið hafi verið samið fyrir nokkrum vikum síðan vegna þess að sá ólgusjór sem hér ríkir hefur verið okkur alveg ljós um nokkurra missira skeið. Sú kreppa sem hið alþjóðlega kapítalíska hagkerfi Vesturlanda er að ganga í gegnum hefur raunar verið fjármálasérfræðingum, hagfræðingum og mörgum öðrum ljóst frá miðju ári 2007 og þegar sagt er að þetta komi allt saman á óvart og komi öllum að óvörum í umræðunni hér á Alþingi þá er einfaldlega ekki haft rétt við.

Um hitt getum við deilt að hvað miklu leyti þær aðstæður sem við glímum við núna eru vegna einhvers sem gert hefur verið hér heima og að hvað miklu leyti það er vegna einhvers sem við réðum ekki neitt við og það er höfuðmálið. Það er ekki nákvæmlega hverjar orsakirnar voru heldur hver viðbúnaðurinn var. Það er grátlegt að hugsa til þess að aðeins fyrir hálfum mánuði stóðum við í þessum sal og ræddum efnahagsmálin á hinu stutta haustþingi sem haldið var og einnig þá skellti stjórnarmeirihlutinn við skollaeyrum og það mátti meira að segja heyra marga stjórnarþingmenn tala um nauðsyn þess að haldið væri aftur af mögulegri þenslu í samfélaginu, að haldið væri aftur af því að hagkerfið færi ekki á hliðina af of miklum vexti og þenslu. Þetta kemur inn á það sem við höfum rætt áður, m.a. í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra fyrr í morgun. Ég hygg raunar að við séum ekki svo ósammála sem ætla mætti um greiningu á þeim aðstæðum og um það mikla tjón sem það hefur skapað samfélaginu að við höfum ekki haft viðbúnaðinn fyllilega við hæfi gagnvart því að hjól atvinnulífsins á Íslandi geta stöðvast ef ekki verður gripið til viðeigandi ráðstafana og þar lýsi ég ábyrgð á hendur þeim stjórnvöldum sem hafa alveg fram eftir septembermánuði þessa árs þrætt fyrir að hér væri eitthvað raunverulegt að sem máli skipti.

Í því samhengi langar mig að koma aðeins inn á málflutning þann sem viðhafður var við gerð síðustu fjárlaga því um það ræddum við hæstv. fjármálaráðherra aðeins í morgun. Það er rétt að við framsóknarmenn vöruðum við því að þá væri farið af stað með fjárlög með 20% aukningu ríkisútgjalda. Einkanlega vegna þess að við töldum mikilvægt að hér væri samstillt efnahagsstjórn. En hefur verið samstillt efnahagsstjórn í landinu? Hún hefur verið með þeim hætti að fjármálaráðherra telur einu leiðina vera þá að hann tjái sig ekki um ákvarðanir Seðlabanka og Seðlabanki gefi honum á meðan frið og tjái sig ekki um ríkisstjórnina. Þetta á ekkert skylt við samstillta stjórn efnahagsmála heldur á þetta skylt við einhvers konar vopnahlé sem fjármálaráðherra hefur vonast til að hann næði við Seðlabanka Íslands en hefur nú verið mjög forgefins að það vopnahlé hafi haldið eins og fréttir bera mjög glöggt með sér síðustu daga og raunar síðustu mánuði.

Við bentum á að það væri heldur ekki þörf á því að auka ríkisútgjöldin svo hratt og margt í þeim veislubúnaði sem efnt var til með síðustu fjárlögum fyrir ári síðan væri allsendis óviðeigandi og ætti ekki rétt á sér. Við töldum að það væri brýnt að sýna aðhald á því ári vegna þess að hagkerfið væri enn að komast út úr hinni miklu þenslu sem hefði verið vandamál. Ég er ekki að segja að það sé einfalt að stýra hagkerfi sem gengur í jafnmiklum bylgjum og verið hefur núna en aftur á móti var þetta ekki bara okkar mat að ástandið væri svona, þetta var líka mat helstu hagfræðinga sem fjölluðu um þetta. Þetta var mat atvinnulífsins. Þetta var mat Seðlabankans og þetta var mat fjölmargra annarra sem tjáðu sig um málið. Og stundum mátti jafnvel lesa það út að þetta væri mat margra stjórnarliða líka en það væri bara erfitt að halda aftur af veislugleðinni þegar ný ríkisstjórn væri sest að völdum. Þess vegna lýsi ég ábyrgð á hendur fjármálaráðherra og ríkisstjórn Íslands fyrir þau lausatök sem voru viðhöfð í fyrra vegna þess að þau hafa síðan aftur stuðlað að því að Seðlabankinn hefur talið sér skylt að halda hér uppi háum vöxtum og verið nokkuð þröngur stakkur skorinn með að fara í þær vaxtalækkanir sem algerlega voru nauðsynlegar.

En að þessu sögðu, á þeim stutta tíma sem ég hef, langar mig að víkja aðeins að fjárlagafrumvarpinu sjálfu og skal ekki verða hæstv. fjármálaráðherra til vonbrigða með það að fjalla ekki efnislega um það í nokkrum orðum að minnsta kosti og fleiri vonandi síðar í dag. Við höfum ekki annað að styðjast við en þær tölur sem hér eru og ég lýsi því yfir enn og aftur að ég tel margt í þeim mjög ómarktækt. Ég held að það sé enginn ágreiningur milli okkar um það atriði því ólgusjóir hagkerfisins eru með þeim hætti. En það verður engu að síður að fjalla um þetta út frá þeim tölum sem hér eru og í frumvarpinu er gert ráð fyrir verulegum halla á fjárlögum.

Ég gagnrýni ekki út af fyrir sig að það skuli vera halli á fjárlögum við núverandi aðstæður. Það er í raun og veru óumflýjanlegt. Ég hef ekki náð að lesa allt frumvarpið en megnið af bókinni hef ég þó lesið og ég hef aðeins komist í það verkefni að bera hana saman við aðrar bækur sem ég hef fundið í hillunum hjá mér og ég tel mjög margt í þeirri aukningu útgjalda sem ég sé í frumvarpinu vera eðlilegt. Til dæmis er ekki hægt að gagnrýna meiri vaxtakostnað eða aukningu í launakostnaði og ég er sammála þeirri áherslu að leggja nú nokkuð ríflega til stofnfjárframlaga og hefði raunar viljað ganga þar lengra á ýmsum sviðum. En nú kemur það fram sem ég sagði í ræðupontu í fyrra að flest það sem var lagt til stofnframkvæmda í fjárlögum síðasta árs fór auðvitað ekki til framkvæmda því það voru mest allt óraunhæf loforð en nú koma þau okkur til góða og það hefði verið betra að bíða með þau loforð til þess að vera með lágstemmdari fjárlög sem hefðu virkað inn í hagstjórnina. Því tölur fjárlaga virka jafnvel þótt um sé að ræða tölur sem hægt er að reikna út að komi ekki alveg til framkvæmda, það eru skilasboð inn í hagkerfið. Það eru skilaboð inn á markaðina, það eru skilaboð varðandi krónuna og það eru skilaboð varðandi vaxtastigið. Við höfum nú svolítið færri sjóði — hversu traustir sem sjóðir Íslendinga eru yfir höfuð um þessar mundir — en við höfum þá a.m.k. svolítið á blaði sem við færum á milli ára og það er vel.

Það sem ég aftur á móti gagnrýni sérstaklega í frumvarpinu eru þau almennu lausatök og það litla tillit sem er tekið til þess hversu alvarlegum tímum við lifum á þar sem allir verða að herða sultarólina. Við leggjum gríðarlegar byrðar á fyrirtæki og almenning við þær aðstæður sem nú eru og við vitum að á báðum þessum vígstöðvum, í atvinnulífinu og á heimilum eru allar fyrri fjárhagsforsendur brostnar og það getur í rauninni enginn lifað komandi ár við sömu aðstæður og hafa verið heldur verða allir að laga sig mjög að nýjum veruleika. Það er einfaldlega þannig að það fær enginn í samfélaginu verðbólguna og gengisfellinguna bætta að fullu. Nema hver? Nema ríkisstofnanir því samkvæmt þessu frumvarpi fá þær þetta algerlega bætt. Varðandi þá miklu verðbólgu sem verið hefur á yfirstandandi ári, en í fjárlögum 2008 var reiknað með verðlagshækkunum upp á 3,8%, þ.e. 11%, þá er í frumvarpinu fyrir 2009 gert ráð fyrir að vega að fullu upp þennan mismun á verðbólguspánni milli áranna 2007 og 2008 með því að bæta honum við hækkun til ársins 2009 sem spáð er að verði 5,4%.

Það kemur víða fram sams konar þankagangur í frumvarpinu við gerð fjárlaga, og kemur kannski ekki á óvart þegar embættismenn smíða það utan um sig og sína kollega hvernig þeir ætla að lifa, en það er kannski einna helsti gallinn við plagg eins og þetta að það er of mikið samið af embættismannavaldinu og of lítið af hinu pólitíska valdi. Á blaðsíðu 215 segir, með leyfi forseta:

„Í forsendum gjaldahliðar frumvarpsins hefur ekki tíðkast að spá fyrir um þróun á gengi gjaldmiðla heldur hefur verið miðað við að gengi þeirra haldist óbreytt frá því í byrjun september á undan fjárlagaárinu. Miðað við forsendur fjárlaga 2008 hefur gengi krónunnar veikst verulega, eða um það bil 40%, gagnvart helstu Evrópumyntum en heldur minna gagnvart bandaríkjadal.“

Síðan segir:

„Ef gengi krónunnar breytist á næsta ári frá þessum forsendum má gera ráð fyrir að fjárheimildir viðkomandi liða verði endurmetnar í samræmi við það og að gerðar verði tillögur um breytingar á þeim í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2009.“

Og svo ég haldi enn áfram á blaðsíðu 215 þá segir þar að af 73 milljarða hækkun fjárlaga séu um 29,2 milljarðar vegna launa- og verðlagshækkana á útgjöldum frumvarpsins. Ég tel með öðrum orðum að við getum ekki gagnrýnt það þar sem beinar launataxtahækkanir hafa komið til hjá ríkisstarfsmönnum. Þar hækka auðvitað þeir fjárlagaliðir. En ég tel aftur á móti að stofnanir sem starfa innan ríkisins, fyrirtæki og stofnanir ríkisins verði líkt og atvinnulífið og líkt og heimilin að taka á sig versnandi kjör. Við verðum að leggja raunverulega sparnaðarkröfu á þessa aðila.

En hver skyldi nú hugmyndafræðin vera varðandi sparnaðarkröfuna? Þá er fróðlegt að líta hér í litlu bókina sem mér dettur nú stundum í hug þegar ég er að bera hana saman við bókina frá í fyrra, sem var bleik á litinn en er græn núna, að það hafi verið hreinlega notuð það sem börnin kalla „copy/paste-skipun“ við að framleiða þessar bækur vegna þess að á blaðsíðu 14 í bókinni í ár segir að rekstrargjöld ráðuneyta verði nú lækkuð um 2 milljarða í sérstökum aðhaldsráðstöfunum eða almennt um 1,2%. Skyldi þetta vera eitthvað frábrugðið því sem var í fyrra? Nei, fyrir ári síðan var einmitt gert ráð fyrir því að lækkun rekstrarútgjalda ráðuneytanna og stofnana þeirra vegna aðhaldsaðgerða væri upp á 2 milljarða. Það er sama tala og þarna er inni. Slíkum kjörum mundu öll heimili fagna, ef nú væri aðeins verið að tala um lækkun í heimilisútgjöldum upp á 1,2%. Við verðum að leggja sömu byrðar á í ríkisrekstrinum og við leggjum á í atvinnulífinu. Það vantar mikið á þann hugsunarhátt í þessu frumvarpi. Þess vegna geri ég það að tillögu minni við endursamningu frumvarpsins, því þó svo við tökum það til umræðu núna þá verður það tekið algjörlega til endurskoðunar á komandi hausti vegna þeirra miklu breytinga og þeirrar miklu þróunar sem nú er — enn sem komið er a.m.k. til hins verra þó að maður vilji alltaf vona að einhver spil séu á hendi sem geti lagað ástandið og verður eiginlega að vera — að þá verði opinberar stofnanir að mæta í rekstri sínum þeim 30 milljörðum af þessari 73 milljarða hækkun fjárlaganna sem eru beinlínis verðbólgubætur opinberra stofnana. Þá erum við ekki að tala um launaþáttinn heldur bara almennt að stofnanir þurfi að þola eins og aðrir að allt kostar svolítið meira. Ég tel í rauninni að það sé ekki forsvaranlegt að við hækkum útgjöld stofnana og ráðuneyta algjörlega í samræmi við verðbólguna.

Ég get tekið dæmi upp úr þessu ágæta plaggi án þess að ég hafi neitt horn í síðu þeirrar stofnunar sem ég nefni, þetta er bara valið tilviljanakennt, að hér er talað um menntamálaráðuneytið sem fær um 100 milljóna kr. hækkun vegna aðalskrifstofu. Það er þá um 16% hækkun á útgjöldum til að mæta verðlagsþróun. Þá er ég ekki að tala um sérstök verkefni. Ég er ekki kominn svo langt í lestri þessarar bókar að ég ætli að fara að ræða einstaka fjárlagaliði eða einstök verkefni. Margt sem ég sé þar er ég ánægður með og annað tel ég að mætti kannski bíða. Ég tel að þar þurfum við að ganga miklu lengra í að fresta hlutum sem ekki eru endilega arðbærar framkvæmdir. Við þurfum sérstaklega að horfa til þess núna að verja allri aukningu fjárlaganna til framkvæmdaþátta og hefði raunar talið að það veitti ekkert af að þeir 30 milljarðar sem við sjáum í verðbólgubætur til stofnananna færu beint inn í framkvæmdaþætti.

Ég undrast það ráðslag að hér skuli t.d. stórframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu, fleiri en einni, vera slegið á frest í frumvarpinu vegna þess að það er alveg ljóst af fréttum núna að hin skarpa efnahagsdýfa og fyrirsjáanlegt atvinnuleysi vegna hennar kemur harðast niður á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að menn hafa heyrt mig tala á þeim nótum að ég teldi mikið atriði, og ég tel það, að við beitum ríkissjóði til jöfnunar í byggð landsins. En við þær aðstæður sem nú eru þá þurfum við líka að horfa til þess að hér verður virkilega erfið staða í atvinnumálum og sérstaklega í þeim atvinnumálum sem lúta að framkvæmdum. Við verðum að horfa til þess hvar störfunum fækkar og að auka þau á sambærilegum sviðum. Verktaka- og byggingariðnaðurinn býr við gríðarlega erfiðleika núna og þegar er orðin mjög mikil fækkun starfa þar og til þess verðum við að horfa.

Tími minn er nú senn á þrotum og það er margt fleira sem ég hefði viljað koma inn á. Mig langar rétt í lokin að víkja að því sem er sýknt og heilagt talað um í þessum sal, þ.e. að við höfum ekki getað ráðið við þróunina. Það er líkt og með jarðskjálftann sem við upplifðum á Suðurlandi í sumar að við réðum ekkert við komu hans og við gátum sagt þegar glerbrotin lágu út um öll okkar hús að þau væru ekki okkur að kenna og þess vegna ættum við að láta þau vera. Ég skal að vísu viðurkenna að það kemur enn fyrir núna á haustmánuðum að ég er að finna einhver (Forseti hringir.) glerbrot svo víða spýttust þau, en það hefur ekki enn hvarflað að mér sá hugsunarháttur, kannski af því að ég hugsa öðruvísi en ríkisstjórnin, að láta þau vera af því þau eru ekki frá (Forseti hringir.) mér komin.