136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

stóriðjuframkvæmdir.

[13:40]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svör hans. Ég veit vel að afstaða hans liggur fyrir um nauðsyn þess að þetta mál fái áfram framgang. En ég er samt að leggja áherslu á að nú eru komnar upp aðstæður í íslensku efnahagslífi sem eru það óvenjulegar og sérstakar að gripið var til setningar neyðarlaga í gærkvöldi. Það er því enn brýnni nauðsyn en áður að þessar framkvæmdir — og þá á ég sérstaklega við Bakka á Húsavík af því að ég veit að hitt er vel á veg komið — fái haldið áfram og það verður ekki gert nema með styrkri stoð og aðstoð frá ríkisstjórn Íslands. Hún verður að vera meiri og umfangsmeiri heldur en hún hefur verið hingað til. Ég brýni forsætisráðherra, um leið og ég þakka honum fyrir hans svör, til að stuðla að því að þessu verkefni verði fram haldið.