136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[14:36]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil gera athugasemdir við málflutning hv. þm. Bjarna Harðarsonar. Það er sérstaklega varðandi frjálsa framsalið. Árið 1991 þegar frjálsa framsalið var sett á batt það hendur manna mjög mikið. Áður en það varð til, þ.e. frá 1984–1991, var boðið upp á þrjá valkosti, aflamarkskerfi, sóknarmarkskerfi og svo var hægt að fá meðalafla sambærilegra skipa á sama svæði. Þetta var þriðji valkosturinn sem menn nýttu sér töluvert, sérstaklega þegar þeir voru að kaupa togara á suðursvæði og færa á norðursvæði.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að allir þingmenn séu vel inni í sögu fiskveiðistjórnarkerfisins á Íslandi. En við sem nánast vorum búnir að vera nokkur ár skipstjórar áður en kerfið var sett á og upplifðum svo hömlur og skerðingu á atvinnufrelsi og töldum að við værum misrétti beittir við það að af okkur var tekið atvinnufrelsið, höfum auðvitað ekki sætt okkur við þetta og munum auðvitað aldrei gera það. Við fengum stuðning síðasta vetur frá mannréttindanefnd þar sem hún tók undir það að verið væri að brjóta á okkur mannréttindi og atvinnuréttindi væru tekin af okkur með þessu kerfi.

Við í Frjálslynda flokknum höfum flutt tillögur. Á síðasta þingi fluttum við tillögur um frjálsar handfæraveiðar eftir ákveðnum leikreglum, meðal annars um tvær rúllur á hvern mann. Ég vildi bara minna hv. þingmann á þetta.