136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[15:19]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við lok þessarar umræðu vil ég nota tækifærið og þakka fyrir hana, andsvör jafnt sem aðrar ræður sem komið hafa fram. Ég tel að umræðan hafi verið málefnaleg og dregið fram ýmis þau atriði sem nauðsynlegt er að ræða þegar menn ræða um nýtingu aflaheimilda í sjávarútvegi og hvernig með skuli fara. Við ræðum þessi mál við mjög sérstakar aðstæður sem ég held að ekkert okkar hafi nokkurn tíma upplifað áður. Það þarf sennilega að fara aftur til ársins 1933 til þess að finna sambærilega erfiðleika og við stefnum í í íslensku þjóðfélagi nú.

Þess vegna er mjög mikilvægt að tillagan sem hér er lögð fram fái góða og efnislega umfjöllun og að menn horfi á hana frá mörgum hliðum, svo sem hvað tekjuöflun varðar, að tryggja stöðu byggðanna úti um landið, að sjávarútvegurinn fái ráðið við þær miklu skuldbindingar sem á honum hvíla og að við reynum með þessu að auka bjartsýni og von í íslensku þjóðfélagi eins og hv. þm. Karl V. Matthíasson vék hér að. Ég tek undir orð hans um að það þurfum við að gera. Við þurfum að koma skilaboðum til íslensku þjóðarinnar um að menn ætli að takast af alvöru á við að auka hér tekjur og tekjumöguleika og reyna að viðhalda atvinnulífinu, að menn séu tilbúnir til þess að taka einhverja áhættu í því sambandi og geri það sem gera þarf til þess að komast út úr því ástandi sem við búum nú við.

Hæstv. forseti. Ég vona að tillagan gangi til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og fái þar mjög jákvæða afgreiðslu.