136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

lög um fjármálafyrirtæki.

[13:48]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa rætt um mikilvægi þess að læra af því sem við höfum gengið í gegnum. Ég held að erfitt sé að finna mál sem er betur til þess fallið að vera prófsteinn á hið nýja fyrirkomulag sem forsætisnefnd Alþingis hefur kynnt um opna nefndarfundi. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. forseta þingsins fyrir frumkvæðið sem hann hefur sýnt í því máli.

Þegar við höfum komist í gegnum þessar erfiðu fyrstu vikur blasir við að gerð verður úttekt á því sem aflaga fór og á hún hvergi betur heima en í opnu nefndarstarfi viðskiptanefndar svo almenningi verði ljóst hvernig þetta gat gerst og allir geti talað þar með hreinskiptum og opnum hætti og ekki sé reynt að draga nokkra dul á hvernig þessi atburðarás varð.

Við getum rætt um hlutverk eftirlitsstofnana en ég vil undirstrika að maður hlýtur að staðnæmast við þá ábyrgð sem forsvarsmenn Landsbankans bera þegar kemur að siðferði, rekstri og refsirétti en þeir héldu áfram að stofna til skuldbindinga eftir að athugasemdir Fjármálaeftirlitsins lágu fyrir um að ekki væri búið um hnúta með fullnægjandi hætti. Þar liggur mikil ábyrgð og þeir sem kusu að axla hana verða að svara fyrir ákvarðanir sínar.