136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

samvinnu- og efnahagsráð Íslands.

5. mál
[14:58]
Horfa

Flm. (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa efnismiklu ræðu og góðu hugsun sem henni fylgdi í þessum ræðustól og tek undir það að margir hafa flutt varnaðarorð sem eru eftirminnileg á síðustu mánuðum og er hv. þm. Jón Magnússon einn af þeim. Það þýðir ekki að tala um það en á þau var því miður ekki hlustað sem skyldi og viðbrögðin voru aldrei markviss Í rauninni vorum við óundirbúnir því sem nú hefur gerst og erum vanbúnir á margan hátt til að takast á við þessa erfiðleika. Íslendingar hafa um langa hríð lifað í góðæri. Hugsið ykkur að allt í einu erum við komnir í alþjóðadeilu. Það eru orðin yfir 30 ár síðan við glímdum við Bretana síðast út af lögsögu og landhelgi okkar og við urðum að takast hart á við breska heimsveldið, þjóð sem var vinaþjóð okkar og við höfðum gert mikið fyrir, bæði lagt land okkar undir varnarmenn þeirra sem voru að verja sitt land og okkar og Evrópu og leyft þeim lengur en öðrum að vera í okkar lögsögu. Nú er í mínum huga alvarlegasti hluturinn og ég hef á það bent að við eigum enga vörn aðra, ekki síst út af því fólki og þessari þjóð horft til framtíðar, en að takast hart á við Bretana. Þeir hafa fellt íslenskan stóran banka með lögregluaðgerð, með hryðjuverkalöggjöf sem enginn hefði trúað. Þess vegna hef ég haldið því fram við forsætisráðherra og sagt frá því opinberlega að það er mín skoðun að við auðvitað kærum Bretana strax, við kærum þá út af Evrópska efnahagssvæðinu sem Kaupþing starfaði á á allan hátt löglega. Þeir brutu það. Við kærum þá út af hryðjuverkalöggjöfinni sem þeir beittu á okkur, fyrir öllum hugsanlegum mannréttindadómstólum, Sameinuðu þjóðunum og svo framvegis þannig að þeir eiga ekkert annað skilið við þessar aðstæður því það sem mun gera Íslendingum erfitt í framtíðinni er að þessari aðgerð hefur fylgt mjög vond umræða um Ísland um víða veröld og það finna áreiðanlega best þessir 46 þúsund Íslendingar sem hv. þingmaður minntist á og eru í störfum og námi um allan heim. Hugur okkar dvelur hjá þessu fólki sem hugsar heim við þessar aðstæður en á líka mjög erfitt þar sem það er statt. Þess vegna verðum við að taka allar varnir til sem skipta máli til að berjast við aðgerðir sem verða ekki þolaðar af vinaþjóð, aðgerðir sem eru einstakar í veraldarsögunni og við hljótum að vinna þau mál og eiga þar eins og breskir lögmenn segja miklar peningafúlgur, skaðabætur fyrir framferði bresku ríkisstjórnarinnar. Við verðum að höggva á þann „Gordonshnút“. Gordon Brown á ekki að þurfa að sleppa frá þessu máli. Ég hygg að það verði svo þegar þetta mál verður gert upp að margir vinir okkar og þess vegna pólitískir menn bæði í Stórþinginu og vinir okkar í Bretlandi muni hugsa til okkar og þeim hafi fundist þetta fjandsamleg aðgerð þegar þeir sjá ofan í hana. Ég vildi enn og aftur halda þessu til haga.

Hv. þingmaður minntist á það sem hefur haft mikil áhrif. Það er auðvitað stefna ríkisstjórnarinnar. Seðlabankinn fer með ákveðin verkefni og er stjórntæki og ráðgjafarstofa. En allt sem þar er gert er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Við framsóknarmenn höfum talað gegn hinu háa stýrivaxtastigi mánuðum saman. Við segjum í júlí í tillögum okkar, með leyfi forseta:

„Hafa ber í huga að Seðlabankinn er ekki aðeins bundinn verðbólgumarkmiði heldur einnig því að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi og framgangi efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

Þingflokkur framsóknarmanna bendir á að samdráttur íslenska hagkerfisins virðist vera harðari og meiri en gert var ráð fyrir og því eru fullar forsendur fyrir því að hafið verði lækkunarferli stýrivaxta Seðlabanka Íslands hið fyrsta. Þetta verði liður í þeim vegvísi sem ríkisstjórn og Seðlabankinn þurfa að opinbera fólki og fyrirtækjum.“

Þetta sögðum við í júlíbyrjun. Sannarlega er það nú svo að stýrivextina höfum við barið aftur og aftur eins og kerlingin Sæunn á Bergþórshvoli barði arfasátuna forðum og varaði við henni. Það er engin spurning að stýrivextirnir eru á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, gengisskráningin bæði meðan það var hátt og nú meðan allt hefur snúist og fallið er auðvitað allt á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og það er furðulegur hlutur eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns að menn skuli ekki þegar reyna að gleðja þessa þjóð með einhverju, ganga strax til lækkunar stýrivaxtanna og þessara okurvaxta á Íslandi sem eru að kyrkja fyrirtækin og fólkið, það skulduga. Síðan er það auðvitað að gefa nýja og bjartsýna von. Ég er þeirrar skoðunar að alveg eins og ríkisstjórnin í grandaleysi sínu sagði á sínum fyrstu dögum að nú skyldi þorskkvótinn skertur um 63 þúsund tonn — á einu bretti voru 20 milljarðar teknir út úr hagkerfi sjávarútvegsins, út úr íslensku hagkerfi af því að ríkisstjórnin taldi þá að þjóðin hefði efni á þeirri áhættu. Byggðunum blæddi. Mótvægisaðgerðirnar voru aðhlátursefni og þess vegna eigum við engan kost annan núna við þær aðstæður en að ákveða strax að auka þorskveiðar á ný á Íslandi. Við höfum alltaf í öllum kreppum sem hafa gengið yfir okkur orðið að sækja af meiri festu í auðlindir okkar enda eru allar tillögur vísindamanna, ákvarðanir stjórnmálamanna umdeildar í þessum efnum. Ég tek mikið mark á hagfræði og lífsskoðun sjómannsins. Sjómaðurinn fylgist með lífkeðjunni og menn segja mér að sjórinn sé fullur af þorski, sé hægt að veiða 100 þúsund tonn af ýsu þá eigi að vera hægt að veiða 200–300 þúsund tonn af þorski. Við eigum ýmis góð færi sem við þurfum að gefa sem fyrst út til að draga úr drunga og áhyggjum okkar þjóðar þannig að þjóðin sjái að ríkisvaldið og Alþingi ætli að draga seglin upp og reyna að sigla út úr þeirri lægð, út úr þeim gríðarlegu erfiðleikum sem við erum stödd í. Þetta vildi ég taka fram.

Ég minni á að þegar þessi hagsveifla hófst undir lok síðustu aldar þá var það mikið gleðiefni okkar framsóknarmanna og sjálfsagt allra stjórnmálaflokka og þjóðarinnar að þúsundir Íslendinga, vel menntað fólk sem var sest að í útlöndum, fékk margvísleg verkefni í stórhuga stofnunum á Íslandi sem voru að rísa til mikillar sóknar og eru enn þá sterkar í landinu. Fólkið flutti heim og fékk störf við sitt hæfi. Nú segi ég: Auðvitað þarf unga fólkið að fá að mennta sig þannig það geti líka komið heim að námi loknu og fengið störf við sitt hæfi. Við megum ekki missa 20% þjóðarinnar frá okkur. Þess vegna þurfum við öll að berjast fyrir bjartsýni, berjast fyrir þjóðarsátt. Öll sterkustu öflin verða að setjast í samvinnu- og efnahagsráð til þess að gefa út skýr skilaboð þannig að menn tali ekki í eina áttina í dag og aðra á morgun. Við verðum öll að vera í þeim sama báti að bjarga þessari þjóð út úr þessum erfiðleikum. Það eru allar þjóðir nú að gera. Evrópa er breytt. Ameríka er breytt. Evrópa er ekkert söm á eftir. Evran er ekkert söm. Evrópusambandið er ekki eins góður kostur nú og margir héldu í fyrradag. (Forseti hringir.) Gordon Brown nefni ég eina ferðina enn. Hann segir. „Nú verðum við að hugsa um okkar þjóð og okkar fólk. Það er skylda okkar.“ (Forseti hringir.) Það var viturlega mælt af honum, eitt af fáu. En það er líka skylda okkar hér heima að (Forseti hringir.) hugsa um okkar fólk og okkar þjóð.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.