136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[17:01]
Horfa

Kristrún Heimisdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrðist hv. þm. Jón Magnússon einmitt lesa upp úr niðurstöðunni af svari íslensku ríkisstjórnarinnar sem styður og staðfestir það sem ég hef haldið fram. Svar ríkisstjórnarinnar felur í sér að menn ætla að fara yfir kvótakerfið á grundvelli niðurstöðu mannréttindanefndarinnar með þeim hætti sem vinnuferlar mannréttindanefndar ganga út á að gert verði. Ríkisstjórnin fylgir nákvæmlega því ferli sem sett er upp.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að kvótakerfið brjóti gegn jafnræðisreglunni. Ég er líka þeirrar skoðunar að aðrir þættir hafi haft mikil áhrif, sérstaklega eftir því sem tímanum hefur undið fram. Huga þarf að eignarréttarákvæðum og við stöndum frammi fyrir því að Hæstiréttur Íslands hefur fjallað um þau mál með ákveðnum hætti. Ég segi því hér á hinu hv. Alþingi, og ítreka það sem ég sagði í fyrstu ræðu minni, að tíðindin í niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna felast í túlkun á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Nefndin gengur lengra í túlkun á jafnræðisreglu, það er að segja á jafnræðisreglu samningsins um borgaraleg stjórnmálaréttindi. Það hefur að mínu mati áhrif á túlkunina á jafnræðisreglu íslensku stjórnarskrárinnar eins og kemur beinlínis fram í lögskýringargögnum, þ.e. frumvarpinu sem samþykkt var á Alþingi um breytingar á stjórnarskránni 1994. Þetta er lykilatriði. Þetta er verulegur árangur og um það ættu menn að tala, sérstaklega þeir sem vilja að samfélagið nái árangri í því að breyta kvótakerfinu og færa það í jafnræðisátt.