136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[17:05]
Horfa

Kristrún Heimisdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri ýmsar athugasemdir við tillöguna eins og hún liggur fyrir frá Frjálslynda flokknum. Það breytir því hins vegar ekki að það er skoðun mín, eins og ég hef nú þegar lýst — og get vísað í mínar fyrri ræður um mikilvæga áfanga sem felast í niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Að öðru leyti vil ég enn og aftur vísa til þess að ég tel ljóst að ríkisstjórnin muni fara í endurskoðun og setja af stað vinnu eins og talað hefur verið um og margoft hefur verið sagt. Ég skora á hv. þingmenn að taka mark á orðum sem sett eru fram í fullri einurð og heiðarleika og trúa mönnum þegar þeir segja hlutina. Ég lít svo á að fara eigi í slíka vinnu og ég lít líka svo á að allir þeir sem um áratugabil hafa haft áhuga á breytingum á kvótakerfinu eigi að leggja gott til þeirrar umræðu, og menn eiga að horfast í augu við að breyting á kvótakerfinu verður aldrei einfalt mál. Slík breyting hefði verið miklu einfaldari fyrir 15 eða 10 árum en hún er núna. Það verður aldrei einfalt að breyta kvótakerfinu en að mínu viti eiga allir þeir sem áhuga hafa á því — (GMJ: En þegar sjávarútvegurinn er gjaldþrota?) hvort sem við eigum peninga eða ekki þá gilda lög landsins og mannréttindi. Þeir sem hafa talað í þessari umræðu um algildi mannréttinda þurfa að horfast í augu við það að á krepputímum gilda líka mannréttindi og lög. Ef við höldum okkur ekki við lög á krepputímum má guð fara að hjálpa okkur.