136. löggjafarþing — 13. fundur,  15. okt. 2008.

staða bankakerfisins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:51]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Eftir að alþjóðlega lánsfjárkreppan kom íslenskum bönkum og fjármálalífi í þrot í síðustu viku er óhætt að segja að íslenska þjóðin standi á krossgötum. Það fárviðri sem nú geisar á fjármálamörkuðum um allan heim hefur komið sérstaklega illa niður hér á landi og við höfum misst mikið. Enda voru bankarnir okkar meðal stærstu fyrirtækja landsins með starfsemi úti um allan heim sem hefur fært okkur miklar tekjur og mikil verðmæti undanfarin ár. Hugur minn og okkar allra í ríkisstjórninni er með þeim sem eiga nú um sárt að binda vegna áfalla sem orðið hafa. Ég vil fullvissa fólk um að stjórnvöld eru að gera og munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að veita aðstoð, upplýsingar og ráðgjöf.

Ég vil sérstaklega fagna því, frú forseti, sem forsætisráðherra gat um hér áðan, að rannsaka beri það sem úrskeiðis hefur farið. Það er mikilvægt að brugðið verði upp heildstæðri mynd af því sem gerðist og að allir flokkar komi að þeirri myndbirtingu. Ég vil hins vegar vara við því að farið verði af stað með fullyrðingar og sleggjudóma er byggja einvörðungu á vangaveltum og getgátum, hvort sem það er hér í þingsal eða annars staðar. Við höfum slæma reynslu af slíku.

Á fundi sem haldinn var fyrir skömmu með Fjármálaeftirlitinu í einum af bönkunum stóð upp kona og bað fyrir skilaboð til stjórnmálamanna og ráðamanna að þau sem bankastarfsmenn væru ekki brotamenn. Við skulum því tala gætilega, stjórnmálamenn í öllum flokkum, hvar sem okkur er að finna í þjóðfélaginu. Einnig skulum við óhikað fara vel yfir fortíðina og þannig styrkja okkur í nútíð og efla okkur til framtíðar.

Á sama tíma og við reynum að ná áttum og takast á við erfiða stöðu er ljóst að framtíðin bíður ekki eftir okkur. Við megum engan tíma missa í uppbyggingu og eigum að ganga keik og ákveðin til verkanna sem fram undan eru. Okkur gefst ótrúlegt tækifæri til að stokka spilin og setja okkur ný markmið. Þegar við lítum til baka eftir nokkur ár og veltum fyrir okkur því sem gerst hefur, munum við ekki síður horfa til þess hvernig við sem þjóð nýttum tækifærið til þess að snúa vörn í sókn og byggja okkur upp til framtíðar.

Fyrstu skrefin á þeirri vegferð eru að tryggja að hjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast. Ríkisstjórnin leggur nú allt kapp á að gjaldeyrisviðskipti við útlönd komist í lag og að traust myndist milli manna þannig að gjaldeyrir flæði eðlilega um kerfið, bæði hér heima og á milli landa. Gífurlega mikilvægt er að koma því í lag sem allra fyrst og ég skora á alla að gera sitt til að svo geti orðið.

Það er fagnaðarefni að Seðlabankinn tók af skarið í dag og lækkaði vexti og byrjaði þannig að losa fyrirtæki úr spennitreyju hávaxtastefnunnar. Þetta var skynsamleg ákvörðun. Við þurfum á öllu okkar að halda og höfum ekki efni á að fyrirtæki leggi upp laupana.

Mikið áhyggjuefni er hversu erfitt hefur verið að þjónusta íslenska nemendur erlendis og koma til þeirra framfærslueyri. Allra leiða er nú leitað til að koma því í eðlilegt horf. Þetta er algjört forgangsmál því að við verðum að tryggja að ástandið hafi sem minnst áhrif á námsmenn okkar erlendis og trufli þá ekki í námi.

Hæstv. forseti. Á grundvelli neyðarlaganna sem Alþingi samþykkti í síðustu viku til að tryggja hagsmuni almennings hefur Fjármálaeftirlitið tekið yfir starfsemi Landsbanka, Glitnis og Kaupþings. Starfsemi þeirra tveggja fyrstnefndu hefur verið komið inn í félög sem hafa þegar tekið til starfa. Skjót vinnubrögð í því máli ber að þakka enda höfum við engan tíma mátt missa. Brýnt er að tryggja að innviðir bankakerfis okkar séu virkir bæði innan lands og við útlönd.

Í fjölmiðlum hefur að undanförnu komið fram að lífeyrissjóðir hafi lýst yfir áhuga á að festa kaup á ráðandi hlut í Kaupþingi. Ég fagna því ef unnt verður að koma málum svo fyrir að hér starfi alla vega einn stór banki í einkaeigu. Lífeyrissjóðir hafa hag af því að vinna til baka tapið sem þeir urðu fyrir vegna falls Kaupþings og því tel ég brýnt að þessi möguleiki verði skoðaður vandlega.

Í umróti undanfarinna daga hafa ýmsir haldið því fram að einkavæðing bankanna hafi verið mistök, að hinn opni og frjálsi markaður hafi verið mistök. Ég mótmæli þessu harðlega og hvet menn til að hafa í huga þau verðmæti, þá nýsköpun og þann kraft sem einkavæðing, til að mynda banka og annarra ríkisfyrirtækja, gaf okkur, en öllu frelsi fylgir mikil ábyrgð. Ábyrgðarhlutverkið var ekki tekið nægilega alvarlega á síðustu missirum.

Vissulega gerðum við öll mistök, við verðum öll að líta í eigin barm eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan, stjórnmálamenn, forustumenn fyrirtækja, eftirlitsstofnanir, Seðlabanki og ekki síst fjölmiðlar, allir eiga hér hlut að máli. (Gripið fram í.) Breytingar sem urðu á samfélaginu gerðu það að verkum að Ísland varð eftirsóknarverður staður. Unga fólkið okkar kom heim, vel menntaða fólkið okkar kom heim, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Við fengum kraftmikið og vel menntað fólk inn í samfélagið og hefur það gefið af sér mikil verðmæti. Við verðum að muna úr hvaða ástandi við vorum að koma þegar tekin var ákvörðun um að einkavæða bankana, sem höfðu verið í ríkiseigu með tilheyrandi pólitískum áhrifum og ítökum í starfsemi þeirra. Það væri mikil afturför ef áföll liðinnar viku yrðu til þess að við mundum hverfa varanlega aftur til þess tíma þegar bankarnir lutu alfarið pólitísku valdi og flokksskírteini en ekki færni réð því hverjir fengu lán og fyrirgreiðslu hjá bönkunum.

Ég tel afar brýnt, hæstv. forseti, að við skerum sem allra fyrst á naflastrenginn sem er byrjaður að myndast á milli ríkisvaldsins og nýju bankanna og sést m.a. á því að pólitískir fulltrúar sitja í stjórnum nýju bankanna. Tími pólitískra pótintáta má ekki renna upp að nýju í bankakerfinu. Núverandi ástand er algjör bráðabirgðaráðstöfun á meðan verið er að ganga frá lausum endum en ég tel forgangsmál að fagfólk komi að stjórnun nýju bankanna og stefnumótun þeirra alveg frá byrjun. Ljóst er að öðruvísi skapast ekki traust á starfseminni. Ég fagna sérstaklega ummælum hæstv. viðskiptaráðherra hér áðan þar sem hann dró þetta sérstaklega fram en sá ágæti maður hefur heldur betur staðið vaktina vel að undanförnu.

Með uppskiptingu bankanna kemur margt hæfileikaríkt og velmenntað starfsfólk út á vinnumarkaðinn. Ég legg mikla áherslu á að við höldum vel utan um þennan hóp og tryggjum honum næg viðfangsefni hér heima enda væri miður ef við misstum þetta öfluga fólk úr landi. Undanfarin ár höfum við sem betur fer lagt áherslu á að byggja upp og styrkja umhverfi nýsköpunar- og sprotafyrirtækja hér á landi og ég vona að þar finni sem flestir kröftum sínum farveg á næstunni. Við þörfnumst frumkvöðla og framsækinna hugmynda og þess að ríki, sveitarfélög, háskólar, fjármálastofnanir og fyrirtæki vinni saman að því að virkja sprengikraftinn sem í þessum mannauði felst. Það mun skila okkur fyrr inn í gifturíka framtíð.

Frú forseti. Nú sem fyrr skiptir máli að byggja upp í menntamálum. Við stöndum á krossgötum og verðum að hafa kjark til að forgangsraða og taka stórar ákvarðanir. Engin fjárfesting er tryggari fyrir framtíðina en að fjárfesta í menntun, rannsóknum og nýsköpun enda sýnir reynsla þjóða sem það hafa gert að slíkar ákvarðanir margborga sig og leiða til aukinnar fjölbreytni í atvinnulífinu. Þar bendi ég sérstaklega á reynslu Finna sem tóku þá ákvörðun í erfiðri stöðu á sínum tíma að veðja á menntun, ákvörðun sem hefur svo sannarlega margborgað sig fyrir finnskt samfélag. Í byrjun síðasta áratugar gengu þeir í gegnum eina dýpstu efnahagslægð vestrænna landa í marga áratugi. Bankakerfið skall harkalega niður eftir að hafa vaxið hratt, vextir voru háir og gengið óstöðugt. Kannast ekki einhver við þessa lýsingu? Vöxtur finnska hagkerfisins hefur verið stöðugur upp á við síðan hefðbundið iðnaðarsamfélag þróaðist yfir í hátækniþekkingarsamfélag. Við eigum að skoða hvað aðrar þjóðir hafa lært af áföllum, hvað hefur gengið vel og hvað illa.

Við höfum verið í mikilli menntasókn á öllum stigum. Árið 1997 voru nemendur á háskólastigi um 7.500 en nú nálgast þeir 20.000. Fyrr á þessu ári var tíu ára afmæli Háskólans í Reykjavík fagnað, fyrsta einkarekna skólans á háskólastigi, en hann hefur sýnt sig og sannað þrátt fyrir að hafa verið umdeildur þegar til hans var stofnað. Tilkoma einkaskóla og aukinnar samkeppni á háskólastigi hefur haft jákvæðar afleiðingar í för með sér fyrir alla skólana. Breyttar aðstæður í fjármálakerfi þjóðarinnar búa til tómarúm sem háskólasamfélagið á að nýta sér með því að leggja áherslu á enn frekari tengsl við atvinnulífið á næstu árum. Þetta er tími djarfra ákvarðana sem fela í sér langtímalausnir. Við höfum ekki efni á skammtímalausnum eða smáskammtalækningum.

Hæstv. forseti. Ekkert okkar gat séð fyrir þá atburði sem síðustu dagar og vikur hafa borið með sér. Margt af því sem gerðist var ósanngjarnt og óverðskuldað og þar vísa ég ekki síst til framgöngu Breta, gamallar vinaþjóðar, gegn okkur. Sú deila sem hefur skapast hefur ekki verið Bretum til mikils sóma. Aðgerðir þeirra gegn Kaupþingi í Bretlandi voru algjörlega óafsakanlegar og urðu til þess að fyrirtækið fór í þrot. Íslendingar hafa verið í hlutverki ábyrga aðilans í samskiptum við þetta gamalgróna og reynslumikla heimsveldi. Við höfum reynt eftir fremsta megni að útskýra stöðu okkar og leiða málið til lykta með diplómatískum leiðum. Hins vegar hefur komið á daginn að við áttum í höggi við ófyrirleitna spunamenn sem notfærðu sér vanda og erfiða stöðu smáþjóðar til að reyna að klóra í bakkann í pólitísku dauðastríði sínu í Bretlandi.

Við breytum hins vegar ekki því, virðulegi forseti, sem gerst hefur og eina leiðin í stöðunni er að horfa fram á við. Ísland er ríkt af auðlindum og hæfileikaríku fólki sem hefur hingað til ekki verið þekkt fyrir aðgerðaleysi eða kyrrstöðu. Efnahagsleg áföll, sama hversu alvarleg — og það er engin klisja heldur bláköld staðreynd — munu ekki svipta íslensku þjóðina þeim eiginleikum, sem hafa einkennt hana og fleytt áfram hingað til, bjartsýni, samheldni, æðruleysi og dugnaði. Með slíka eiginleika er og verður framtíðin okkar.