136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[12:16]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á málflutningi hv. þm. Árna Johnsens í sambandi við þetta mál. Ég ætla fyrst að geta um það sem hefur legið fyrir og liggur fyrir og á hefur verið bent ítrekað í þessari umræðu, að mannréttindi eru algild, virðulegi þingmaður. Það sem hv. þm. Árni Johnsen sagði var að á upphafstíma kvótakerfisins hefði margt mátt betur fara en það er ekki það sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna er að gera athugasemd við. Mannréttindanefndin segir: Í sjálfu sér gat það verið afsökunarvirði að setja kvótakerfið á með þeim hætti sem gert var á þeim tíma en það gengur ekki til langframa að hafa þetta kerfi þannig að sumir fá ókeypis en aðrir þurfa að kaupa. Það er grundvallaratriðið þannig að það er ekki upphafið heldur nútíminn sem um er að ræða.

Síðan varðandi það sem var vísað til, þ.e. hverjir væru vinir okkar og annað í þeim dúr, þá sé ég ekki að það eigi erindi í þessa umræðu, en þó að því marki að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur sagt í umræðu um þetta álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna að það væru aðallega dómarar frá þriðja heims ríkjum en ekki frá Bretlandi eða Evrópuríkjum sem stæðu að þessu meirihlutaáliti. Það eru því akkúrat dómarar frá þeim þjóðum sem hv. þm. Árni Johnsen sagði að væru ekki vinir okkar í dag sem standa að meirihlutaáliti og við ættum því að reyna að standa með því sem þeir segja.

Varðandi það að sátt sé um kerfið þá er það alrangt. Það liggur fyrir að það er algert ósætti um kerfið.

Að lokum, hv. þm. Árni Johnsen: Það liggur fyrir að kerfið er svo óhagkvæmt að sjávarútvegurinn í dag á ekki lengur fyrir skuldum.