136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

skipan frídaga að vori.

85. mál
[15:51]
Horfa

Flm. (Samúel Örn Erlingsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni kærlega fyrir hans ágætu framsögu og rök í þessu máli. Það er vissulega svo að það var ekki tilviljun, og það er rétt hjá hv. þingmanni, að umræddir þrír dagar urðu fyrir vali. 17. júní hefur mjög mikla og sterka merkingu sem „hinn sautjándi júní“, rétt eins og sú tilhögun að áhugamenn um þetta mál höfðu það í pakka með fleiri málum sem fengu miklu meiri athygli og voru kannski enn þá umdeildari, t.d. sú hugmynd að hafa sumartíma. Þetta gerði það að verkum að talið var að enginn vinnandi vegur væri að færa þann dag enda verð ég að viðurkenna að persónulega hef ég engan sérstakan áhuga á því, sautjándi júní hefur það stóra og mikla merkingu fyrir hina íslensku þjóð.

Það er vissulega svo að bæði í trúarlegu og verkalýðslegu tilliti líta þjóðir mjög misjafnt á þessa hluti. Það má nefna að sumar þjóðir hafa komið fyrir bænadegi eða degi sem kemur í rauninni í staðinn fyrir uppstigningardag. Í því sambandi má t.d. nefna Dani. Aðrar halda sérstaklega upp á mánudag í maí en ekki 1. maí, og má þar nefna t.d. Bretland og Frakkland. Sumir ganga lengra, á Mön er þjóðhátíðardagur 7. júní, ef ég man rétt, en er alltaf haldinn hátíðlegur næsta mánudag á eftir og fylgir þannig helginni. Ástæðan fyrir því að annar í hvítasunnu var ekki tekinn þarna með er augljós, hann er mánudagur, fylgir helgi sem er frí, þetta eru ástæðurnar. Þetta getur vissulega verið viðkvæmt í ýmsu tilliti og þess vegna er lagt til að nefnd fjalli um málið. Mér þykir mjög merkilegt að heyra rökin um sumardaginn fyrsta sem er sérstakur að þessu leytinu til og er því ekki síður umræðuefni en hinir dagarnir. Eins og þjóðfélagið hefur þróast gæti samverustund fjölskyldu alveg eins verið í lok þess dags því þá væri frídagur daginn eftir.

Hér er ekki lagt til að fjölga frídögum svo neinu nemi, kannski um tvo á sjö árum, þ.e. með 1. maí, þannig að hann fái aukið gildi sem frídagur þá daga sem hann annars félli á laugardag eða sunnudag. Þar með hefði helgin það gildi að hún ýtti undir þetta. Þetta breytir í sjálfu sér engu um vinnutíma til að mynda verslunarmanna sem ég veit ekki betur en vinni flestir alla þessa daga, þ.e. í hinum almennu verslunum sem við komum oftast í — þótt kannski eigi annað við um sérverslanir — en þar sem unnið er á vöktum er unnið nánast alla daga og þá alheilögustu líka. Ég ætla ekkert að fjölyrða sérstaklega um slíkt háttalag en ég hef ekki svo sem neina sérstaka velþóknun á því.

Tillagan gengur út á að bæði frídagarnir og vinnudagarnir nýtist betur. Frídagarnir eru jafnmargir og ég tel að færa megi rök fyrir því að þeir séu verðmætari bæði atvinnulífinu og fjölskyldulífinu og það er vissulega ekki sama hvernig svona lagað er sett fram.

Því ítreka ég að lagt er til að nefnd fjalli um málið og ræði við þá sem helst hafa með þessi mál að gera, t.d. verkalýðshreyfingin, kirkjan og ýmsir fleiri. Ég held hins vegar, bæði af eigin reynslu af því að hafa mannaforráð á vinnustað og í ljósi þess sem ég hef heyrt hjá afskaplega mörgum sem ég hef rætt við um þessi mál, að þetta geti orðið gott mál en það muni taka sinn tíma. Ég held að í því felist ekki þau helgispjöll að dagarnir detti dauðir heldur hitt að þeir fái aukið verðmæti, bæði atvinnulífi og fjölskyldulífi. Því ítreka ég að sú tillaga til þingsályktunar sem hér er lögð fram fái umfjöllun í nefnd og aðra umræðu.