136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

þakkir til Færeyinga – stýrivaxtahækkun.

[13:49]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að beina þessari fyrirspurn til mín. Fyrst hélt ég að hann væri að því vegna þess að ég gegni formennsku í samgöngunefnd þingsins en ég heyrði það á ræðu hans að það er vegna setu minnar í fjárlaganefnd.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði að á fund fjárlaganefndar í morgun komu m.a. fulltrúar frá Seðlabanka Íslands, frá fjármálaráðuneyti og hagfræðingar frá háskólasamfélaginu til að ræða efnahagsmálin og ekki síður stýrivaxtahækkunina. Ég ætla ekki að fara efnislega yfir það sem þar kom fram enda veit hv. þingmaður það eins vel og ég — þær upplýsingar voru gefnar þar — að Seðlabanki Íslands tók ákvörðun og kynnti þessa tilhögun um hækkun stýrivaxta. Það er jú Seðlabankinn sem fer með þetta vald lögum samkvæmt og hann tilkynnti þetta í gær. Hvorki ég né hv. þingmaður eða aðrir hafa einhverjar forsendur til að efast um þá hækkun á þessum tímapunkti.

Fyrst ég er komin upp í þennan ræðustól er ágætt að rifja það upp — af því að hv. þingmaður kemur úr Framsóknarflokknum — að á síðasta kjörtímabili stóð Framsóknarflokkurinn fyrir gríðarlegum stýrivaxtahækkunum með tilheyrandi vandræðum. Nú glímum við við allt annan veruleika í íslensku efnahagslífi, við erum fyrst og fremst að reyna að ná stöðugleika gengis og gjaldmiðils og ná niður verðbólgu. Við skulum vona að þessi stýrivaxtahækkun sem Seðlabankinn hefur kynnt nái markmiðum sínum en verði ekki til þess sem gerðist hér á síðasta kjörtímabili og hv. þingmaður þekkir býsna vel.