136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

heimild til að draga opinber gjöld af launagreiðslum.

82. mál
[14:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég held þó að það væri mjög áhugavert fyrir alla aðila að kanna þetta. Þó að ýmsir leiti eftir samningum á þann hátt sem hæstv. ráðherra fór yfir hér áðan og semji um að halda eftir meiru af launum sínum en 25% þá er það svo að verktaka, eða gerviverktaka eða hvað við viljum kalla það, verður oft til af þeim sökum að fólk fer ekki út í þetta samningaferli, kannski af því að það treystir sér ekki til þess, kannski af því að það er ekki nógu aðgengilegt ferli fyrir fólk sem er komið í skuldir. Því miður eru fjölmörg dæmi þess að fólk forðast að vera á launum til þess að sneiða hjá þessum ákvæðum.

Ég beini því til hæstv. ráðherra að skoða hvort þessi samningaleið sé nægilega aðgengileg fyrir fólk sem hefur lent í vandræðum, hvort þetta kalli á ákveðið frumkvæði sem fólk kannski miklar fyrir sér og fer frekar þá leið sem mörgum kann að virðast auðveldari við fyrstu sýn, þ.e. að fara út í verktöku. Sú leið skapar oft fleiri vandamál en hún leysir, því miður er það svo. Ég velti því fyrir mér hvernig fólk nýtir þessa samningaleið, það hefur verið nefnt hér af hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að tollstjóri telji að tiltölulega vel takist til en það er kannski efni í aðra fyrirspurn að kalla eftir tölum um þau efni og hvernig verktakabransinn hefur þróast á sama tíma, þ.e. skoða þá sem fara í það að þiggja laun eftir þeim leiðum en ekki hinum hefðbundnu launþegaleiðum.