136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:59]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ríkisstjórnin sækir umboð sitt til Alþingis. Þegar hún semur áætlun til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í hverri felast mikilvægar skuldbindingar fyrir ríkissjóð og íslenska þjóð til margra ára eða jafnvel áratuga, skuldbindingar sem við tökum okkur á herðar, ber henni skylda til þess að kynna þá áætlun. Það hlýtur að vera lýðræðisleg skylda ríkisstjórnarinnar að leggja hana fyrir Alþingi. Það er ekki hægt að afgreiða málið á óformlegum þingflokksfundum stjórnarflokkanna, þeir fara ekki með umboð Alþingis sjálfs. Það er lýðræðisleg krafa okkar að slík áætlun fái umfjöllun hjá Alþingi áður en ríkisstjórnin gengur frá skuldbindingum gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er ekki nægjanlegt að koma eftir á og óska eftir samþykki Alþingis. Það er skrumskæling á lýðræðinu, virðulegi forseti.