136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[14:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég vildi einkum gera athugasemd við í máli hv. þingmanns. Í fyrsta lagi staðhæfði hv. þingmaður að ríkisstjórnin væri að brjóta skyldu sína samkvæmt stjórnarskrá og lagaskyldur með því að leita ekki samráðs við Alþingi um þær umleitanir um lánafyrirgreiðslu sem nú hafa staðið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hvorugt á við okkur rök að styðjast og mér þætti gaman að heyra hv. þingmann fara með þær lagatilvitnanir sem hann vísar í máli sínu til stuðnings. Samkvæmt 21. gr. stjórnarskrár gerir utanríkisráðherra í umboði forseta samninga við erlend ríki.

Hvað varðar erlendar lántökur veitti Alþingi hér með lögum í vor sérstaka heimild til lántöku, allt að 500 milljörðum kr., og lántaka hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum rúmast innan þess ramma. Að öðru leyti hefur verið lagður grunnur að efnahagsáætlun sem er unnin til þess að greiða fyrir lántökunni og efni hennar hefur verið kynnt þingflokkum stjórnarflokkanna. Hér hefur að öllu leyti verið staðið fullkomlega eðlilega að málum.

Hv. þingmaður talaði um ábyrgðarleysi Samfylkingarinnar sem fælist í því að benda á mikilvægi aðildar að Evrópusambandinu við lausn á núverandi efnahagsvanda. Íslenska krónan hefur haft í för með sér hrikalegar afleiðingar fyrir íslenskan almenning á undanförnum mánuðum og missirum. Íslenska krónan hefur magnað hagsveiflur en ekki dregið úr þeim og hún hefur aukið á vanda almennings og launafólks í landinu. Ábyrgðarleysið er Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem stendur dyggan vörð um þennan gjaldmiðil sem fyrst og fremst hefur þær afleiðingar að draga úr lífskjörum almennings, skaða hagsmuni hans og veita fé í vasa útlendra spekúlanta.