136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[14:58]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við mundum byrja á því að segja satt og leggja spilin á borðið, en ekki umgangast þjóðina af lítilsvirðingu eins og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins gerir, (ÓN: Hver er að ljúga hér?) (Gripið fram í: Við erum búin að leggja spilin á borðið.) og greina frá þeim skilmálum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur.

Hvers vegna er það svona mikið leyndarmál, hvers vegna er það gríðarlegt kappsmál ríkisstjórnarinnar að leyna grundvallarþáttum þess sem hér er tekist á um? Ef það er síðasta þrautaleiðin að ná í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hvers vegna er því þá leynt? Hvers vegna veitir Seðlabankinn ríkisstjórninni, ráðherrum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, áminningu (ÓN: Þú talar bara út og suður og svarar ekki spurningunni.) með því að benda á að stýrivaxtahækkunin var hluti af samkomulaginu? Hvers vegna á að leyna þjóðina þessum samningum? (LB: Þetta er einföld spurning.) Hvers vegna á að leyna hana, hvers vegna á að skrifa undir samning við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn áður en nokkrar upplýsingar eru gefnar um hvað í því samkomulagi stendur? (EBS: Hvað viljið þið gera?) Ég tel að allt eigi að vera uppi á borði, talað verði við þjóðina og samningar um gríðarlegar lántökur erlendis verði ekki gerðir bak við luktar dyr, segja að þjóðinni komi þetta ekkert við, hún eigi bara að borga. Nei, svona mundu Vinstri grænir ekki starfa.