136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:51]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er mikið umhugsunarefni með stýrivaxtahækkunina en eins og kom fram í ræðu minni hneigist ég til þess að líta á hana sem illskásta kostinn. Við eigum enga góða kosti í þeirri stöðu sem við erum í þannig að ef við ætlum bara að velja þann kost sem hefði ekkert slæmt í för með sér gerðu menn ekki neitt.

Mér finnst hins vegar umhugsunarefni hvers vegna stýrivaxtahækkunin var tilkynnt í fyrradag. Um er að ræða, eftir því sem upplýst er, þríhliða samkomulag milli Seðlabanka, ríkisstjórnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðs. Það er ekki komið á fyrr en stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er búin að afgreiða málið fyrir sitt leyti og þess er vænst að það verði á þriðjudaginn í næstu viku. Þess vegna getur ekki annað verið en að ætlunin hafi verið sú meðal þessara þriggja samningsaðila að stýrivaxtahækkunin tæki ekki gildi fyrr en eftir að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væri búin að samþykkja hana. Orðalag þess texta sem Seðlabankinn hefur upplýst bendir til þess að svo sé. Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi ekki velt því fyrir sér hvað Seðlabankanum gangi til, hvort hann sé raunverulega að vinna að því að uppfylla samkomulag eða koma í veg fyrir að samkomulag nái fram að ganga.