136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[17:53]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Herra forseti. Íslenska þjóðin stendur á krossgötum og hvar sem fólk safnast saman er spurt: Hvað nú? Hvað tekur nú við? Þetta er gott að því leytinu til að fólk er þegar farið að horfa til framtíðar. Ég sótti í gærkvöldi málþing um átaksverkefni í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu að Skógum en hugmyndin var sú að huga að atvinnumöguleikum þessara sýslna, huga að uppbyggingu, þróun, fullvinnslu. Þarna var rætt um möguleikana í korn- og jarðrækt og ýmislegt fleira. Það gleðilega var að þarna var horft til framtíðar. Einn fundarmanna sagði að menn ættu að sammælast um að stöðva kreppuna við Þjórsá. Það var bjart yfir þessum fundi og það er vel. Það er batamerki. Nýja Ísland sem margir tala um þessa dagana byggir m.a. á gamla Íslandi, á atvinnuvegum sem fylgt hafa þjóðinni í gegnum aldirnar.

Það er mín tilfinning að Íslendingar séu að mestu búnir að jafna sig eftir andlega áfallið sem á okkur dundi í byrjun þessa mánaðar jafnvel þó svo að ástandið eigi enn eftir að verða verra með tilliti til atvinnuleysis og gjaldþrota. Botninum er náð hvað varðar andlegt hugarástand þjóðarinnar og nú tekur við uppbyggingarstarf með aðstoð vina og frændþjóða. Samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var lykilatriði í þessum efnum en það er harkalega gagnrýnt hér á Alþingi. Hv. formaður Vinstri grænna segir ónauðsynlegt að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og virðist orðinn sjálfskipaður talsmaður Norðmanna á Íslandi og vita betur en forsætisráðherra Noregs hvað það er sem Norðmenn meina. Hann segir Norðmenn ekki hafa sett nein skilyrði um aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hins vegar var það haft eftir Jens Stoltenberg í fréttum Ríkisútvarpsins í fyrradag að það hafi verið forsenda fyrir öll Norðurlöndin að Íslendingar færu fram á aðstoð gjaldeyrissjóðsins. Í viðtali í fréttinni sem allir geta skoðað á ruv.is segir hann, með leyfi forseta, að það hafi verið lykilatriði að Íslendingar kæmust að samkomulagi við sjóðinn. Hann segir enn fremur að það hafi verið afgerandi fyrir öll Norðurlöndin að samkomulagið væri grundvallaratriði sem auðveldaði Norðurlöndum að veita Íslandi lán.

Það er þetta orðalag sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og formaður Vinstri grænna festir sig í og segir að forsætisráðherrann norski hafi bara sagt að það auðveldaði þeim að aðstoða okkur. Með öðrum orðum, ef ég gagnálykta, sagði þá ekki Stoltenberg að það væri erfitt að lána okkur ef ekki kæmi til aðstoð gjaldeyrissjóðsins? Ef ég bæði vin minn um lán og hann segði að það væri erfitt, þá mundi ég túlka það sem neitun en hv. þingmaður mundi láta vin sinn hafa reikningsnúmerið sitt.

Læknir sem ég þekki sagði við mig að vinstri grænir hegðuðu sér nú eins og sjúklingur sem neitaði að fara í aðgerð vegna þess að hann væri á móti sjúkdómnum. Hann spurði hvort það væri á stefnuskrá vinstri grænna að setja Ísland á líknandi meðferð.

Hvaða framtíðarsýn ætla forustumenn stjórnarandstöðunnar að bjóða þjóðinni á þessum krossgötum? Þeim finnst ef til vill gaman að flytja innblásnar ræður um nýfrjálshyggju, hrun hennar og græðgiskapítalismans en hvaða lausnir bjóða þeir upp á?

Hv. þm. Bjarni Harðarson, talsmaður friðarins í Framsóknarflokknum, telur það mikilvægasta verk dagsins að skamma fjölmiðla fyrir að fjalla um Evrópumál. En nú eru viðsjárverðir tímar í íslenskum fjölmiðlum og það eru viðsjárverðir tímar hvað varðar tjáningarfrelsi á Íslandi því að bág staða fjölmiðlafyrirtækja er ein helsta ógn tjáningarfrelsisins. Það er þá sem ritstjórnir veikjast. Það er þá sem er nauðsynlegt fyrir þá sem stjórna landinu að hugsa mjög alvarlega um veru íslenska Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði vegna þess að það er ábyrgðarhluti þegar verið er að segja við fólk á fjölmiðlum í dag að íslenska ríkið standi í harðri samkeppni við þá miðla.

Það á að rannsaka hvers vegna bankakerfið á Íslandi hrundi og það á að vera óháð rannsókn sem er hafin yfir allan vafa. Þetta á að gera til að koma í veg fyrir að Íslendingar endurtaki mistökin. Ég efast um að við munum finna einhvern einn sökudólg í málinu þó að sumir auðmenn keppist nú við að kenna stjórnvöldum um að hafa ekki fylgst nægilega vel með sér. Það er mikilvægt að læra af sögunni annars erum við dæmd til að endurtaka hana. Ríkisstjórnin tekst nú á við núverandi ástand og ég er sannfærður um að við munum ná tökum á því og komast út úr þessari krísu. En það er mikilvægt að það sé útskýrt vandlega að innganga í Evrópusambandið leysir ekki þann vanda sem við erum stödd í núna. Það mun ekki leysa öll viðfangsefni íslenskra stjórnvalda. Hins vegar er alveg klárt að vilji íslenska þjóðin forða sér frá því að lenda í öðrum eins gjaldeyris- og gengisháska og við göngum nú í gegnum þá blasir það við að okkur ber að stefna að inngöngu í Evrópusambandið og taka upp evru. Það mun tryggja stöðugleika til langs tíma á Íslandi. Það mun tryggja að íslenskur almenningur geti farið til útlanda án þess að breytast í áhættufjárfesti og að íslensk fyrirtæki geti stundað viðskipti á alþjóðamarkaði og gert spár og áætlanir og gert ráð fyrir því að þær standi.

Íslendingar eru að spyrja sig núna hvað taki við og búa sig undir framtíðina. Það er ábyrgðarhluti fyrir stjórnmálaforingja að hlýða ekki á raddir flokksmanna sinna og raddir mikils meiri hluta þjóðarinnar í þessum efnum. Almenningur á Íslandi kærir sig ekki um að ganga í gegnum aðra eins dýfu. Það verður bara tryggt með því að breyta um mynt, það er ekki flóknara en það. Það mun ekki gerbreyta íslensku þjóðfélagi að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna en það mun færa okkur sambærilegan stöðugleika og aðrar þjóðir í Evrópu búa við. Þetta er stærsta hagsmunamál almennings í landinu, venjulegs vinnandi fólks og atvinnulífsins.

Herra forseti. Nú skapast tækifæri fyrir fleiri hundruð Íslendinga til að afla sér menntunar. Það sýnir sig að þeir sem missa fyrst vinnuna í því ástandi sem nú er komið upp er fólkið með minnstu menntunina. Við þurfum að búa okkur undir það að taka á móti þessu fólki og auka möguleika þess á að ná sér í góða vinnu. Árið 2005 höfðu 45.000 Íslendingar á aldrinum 25–60 ára aðeins lokið grunnmenntun. Þarna erum við langt á eftir flestum Evrópuþjóðum og á svipuðu róli og Malta, Portúgal og Tyrkland. Nú er tækifæri fyrir Íslendinga til að leggja mun meiri áherslu á menntun en áður og freista þess að virkja frumkvöðla og nýsköpun og auka við rannsóknir á nýjum sóknarfærum í atvinnumálum. Við stöndum á krossgötum á þeim felast tækifæri. Við þurfum að komast til móts við þá sem missa vinnuna um þessar mundir. Við þurfum að huga að fjölskyldunum í landinu, standa vörð um grunnþjónustu samfélagsins, félagslega kerfið, heilbrigðiskerfið og ekki síst menntakerfið. Þar er grunnurinn og þar liggja tækifæri þjóðarinnar.