136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[19:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að við hv. þm. Helgi Hjörvar náum ekki saman um þetta. Hins vegar held ég að það sé mikilvægt fyrir okkur núna, hvort sem við viljum sjá framtíð okkar innan Evrópusambandsins með evruna eða utan þess, að við stefnum að því að ná þeim efnahagslega stöðugleika sem nauðsynlegur er til þess að íslenskt atvinnulíf geti vaxið og dafnað.

Ég held að við þær erfiðu aðstæður sem við búum við ættum við að sameinast um það sem við getum verið sammála um frekar en að ýfa það sem við vitum að við erum ósammála um. Það er í rauninni miklu uppbyggilegri nálgun en að rífast um hvaða skref við hefðum átt að taka árið 1999 eða síðar. Ég held — og mér heyrist við hv. þm. Helgi Hjörvar vera sammála um það — að Maastricht-skilyrðin feli í sér skynsamleg markmið um efnahagsstjórn.

Þess vegna held ég að við ættum að setjast niður og velta fyrir okkur hvernig við náum í náinni framtíð, vonandi sem fyrst, markmiðum um ríkisfjármál og peningamál sem gera það að verkum að við getum uppfyllt Maastricht-skilyrðin. Hvaða skref þurfum við að stíga? Það eru ekki auðveld skref allt saman. Það mun krefjast mjög erfiðra ákvarðana, bæði á sviði ríkisfjármála og peningamála, að uppfylla þessi markmið. Ég held að það væri uppbyggilegra og nærtækara fyrir okkur að sameinast um að vinna slíkar tillögur og áætlun frekar en að deila um Evrópusambandsaðild og evru sem snýst auðvitað um miklu fleira en bara peningamálastjórn þótt hún sé vissulega mikilvæg.