136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

nýsköpun og sprotafyrirtæki.

[11:00]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Mig langar að ræða stuttlega við hæstv. iðnaðarráðherra um nýsköpunar- og sprotafyrirtæki því að þær hamfarir sem nú ganga yfir skilja marga Íslendinga eftir á berangri. Þessa dagana streyma uppsagnarbréfin inn um lúgurnar en fyrirtækin eru samt sem áður að reyna allt sem hægt er til að halda í starfsfólk sitt, m.a. með því að lækka við það launin og fólk bregst vel við því við þær aðstæður sem skapast hafa. Atvinnuleysi sem við höfum ekki séð árum saman, okkar versti óvinur, er farinn að láta óþyrmilega finna fyrir sér.

Það sem er óvenjulegt við þessar aðstæður núna er hve mikið af vel menntuðu fólki er að missa vinnuna. Margt af því fólki hefur verið drifkraftur í uppbyggingu atvinnulífsins á Íslandi og við verðum að reyna að nýta krafta þess til hins ýtrasta og ná að leysa þann kraft úr læðingi áður en fólk missir hreinlega móðinn. Samtök iðnaðarins, ásamt íslenskum líftæknifyrirtækjum og fleirum hafa kallað eftir því að stjórnvöld skoði sérstaklega þetta mál út frá nýsköpunarsprotafyrirtækjum í landinu á þessum umbrotatímum, með það að markmiði að kraftar þeirra verði virkjaðir og í leiðinni að það fólk sem er að missa vinnuna geti fundið starfsorku sinni vettvang og farveg. Í því sambandi hafa menn nefnt tímabundinn samning við Atvinnuleysistryggingasjóð sem mætti nýta þá sérstaklega í tengslum við þá starfsmenn sem hafa misst vinnuna núna, sérstaklega á fjármálamarkaði. Undir þetta tók hæstv. utanríkisráðherra á þinginu í gær.

Mig langar því til að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort hann hafi haft tök á því í þeim miklu önnum sem hafa verið í ráðuneytinu á undanförnum vikum að líta til framtíðar að þessu leyti og hvort það sé einhver vinna um þessi mál í gangi í ráðuneytinu og hvort ráðherra telji að þetta sé ein af þeim leiðum sem eru fýsilegar til að hjálpa ungum Íslendingum sem nú eiga mjög erfitt.