136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

101. mál
[11:24]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þær viðtökur sem þetta frumvarp hefur fengið hjá þeim þingmönnum sem um það hafa fjallað og vænti þess að það fái fljóta og góða afgreiðslu í samgöngunefnd. Þetta er atriði sem er mikið samkomulagsatriði.

Eins og ég gat um í ræðu minni skipaði ég starfshóp í byrjun þessa árs til að fara yfir þetta. Sú vinna átti m.a. að einfalda reglugerðarumhverfið og stjórnsýslu frístundafiskiskipa og þar með minnka skriffinnsku en um leið treysta öryggi sæfarenda. Þetta voru meginatriðin. Þetta var fyrst og fremst hugsað til þess að einfalda og styrkja þessa mikilvægu atvinnustarfsemi sem, eins og hér hefur komið fram, hefur skotið rótum og er mikill vaxtarbroddur í ferðaþjónustu á Íslandi. Í þessum starfshópi eru m.a. fulltrúar frá tveimur af þeim félögum sem starfa á þessu sviði, þ.e. Finnur Jónsson frá Sumarbyggð hf. og Elías Guðmundsson frá Hvíldarkletti ehf. Eins og ég sagði hefur þessi starfshópur ekki lokið störfum en ákvað að taka þetta mál sérstaklega fyrir og því er þetta frumvarp flutt hér. Það er mikilvægt að þetta verði unnið vel í samgöngunefnd og afgreiðist vonandi fyrir jól vegna þess að þegar við fluttum frumvarpið rétt fyrir þinglausnir sl. vor — við reiknuðum náttúrlega ekki með að fá það samþykkt á þeim tíma — voru það ákveðin skilaboð til þessara fyrirtækja sem voru að auglýsa sína starfsemi.

Vegna þess sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson fjallaði um get ég eiginlega bara vísað til þess sem ég sagði í ræðu minni, að það er lagt til að gera skuli a.m.k. sömu kröfur til þeirra sem stjórna frístundafiskiskipum og þeirra sem stjórna skemmtibátum, þ.e. að viðkomandi þurfi a.m.k. að hafa skemmtibátaskírteini til strand- eða úthafssiglinga eða annað sambærilegt erlent skírteini að mati Siglingastofnunar Íslands. Í þriðja lagi sagði ég að m.a. er lagt til að sá sem gerir út á starfsemi frístundafiskiskipa skuli sjá til þess að stjórnendur skipanna hafi fullnægjandi réttindi og hafi fengið fullnægjandi kennslu á skipið, björgunarbúnað þess, fjarskiptatækni, siglingakort o.fl.

Má ég líka vitna í það, virðulegi forseti, að hér eru auðvitað heimildir til frekari útfærslu á þessum atriðum, í reglugerðum o.s.frv. Það er mikilvægt að það komi fram. Eins og ég sagði áðan er þetta unnið í samvinnu við fulltrúa þessara fyrirtækja og þess vegna tel ég að hér sé um hið besta mál að ræða. Ég ítreka að þarna verður m.a. — væntanlega í reglugerð — lögð sú krafa á fyrirtæki sem stunda þessa starfsemi að þau verði með ákveðin grunnnámskeið þar sem farið verði í gegnum alla þessa þætti, björgunarbúnað, fjarskiptatæki, stjórnbúnað skipsins og annað, þannig að við séum að auka öryggi.

Þess má geta að margir af þeim sem hafa tekið þessa báta á leigu hafa skemmtibátaskírteini til strand- eða úthafssiglinga eða annað sambærilegt erlent skírteini. Siglingastofnun mun útfæra frekar hve miklar kröfur skuli gera til þessa.