136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[12:33]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði aðeins að bregðast við því sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði í ræðu sinni um aðferðafræði flokkanna. Ég er honum hjartanlega sammála nánast um hvert atriði sem hann gat um í ræðu sinni. Þetta er því kannski hugleiðing frekar en beint andsvar við ræðu hans. En þó, það snýr að þessu með prófkjörin og kvótana.

Við verðum að hafa í huga að við viljum byggja á jafnræði í samfélaginu. Við erum ekki að tala um að konur séu settar framar eða þeim sé hyglað á framboðslistum eingöngu vegna kynferðis og markmiðið sé að konur verði fleiri en karlar. Það hlýtur að vega þyngst, eins og hv. þm. Ásta Möller kom hér inn á, að kynin hafa mismunandi áherslur og mismunandi áhugamál og það skiptir miklu máli að sjónarmið beggja kynja komi alltaf fram.

Ég vil því segja varðandi prófkjörin og fléttulistana að útfærslan á því getur verið með ýmsum hætti. Það var nefnt að í einhverjum tilfellum væru konur fleiri en karlar og þess vegna væru fléttulistar þar sem kynin skiptust á ekki heppilegir. Ég hefði frekar viljað nálgast það þannig að flokkarnir skoðuðu það að ef fjórir öruggir þingmenn eru í tilteknu kjördæmi þá hafi flokkurinn þá reglu að það skuli vera tvær konur og tveir karlar.

Ef flokksmenn velja síðan að tvær konur séu í tveimur efstu sætunum og tveir karlar í tveimur neðri eða öfugt þá er það allt í lagi svo fremi sem menn ganga út frá því að þessir fjórir séu þá öruggir fyrir viðkomandi flokk. Það má líka útfæra þetta á þennan hátt án þess að þetta sé endilega alltaf kona, karl, kona, karl eða karl, kona, karl, kona.