136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[14:01]
Horfa

Flm. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála síðustu orðum síðasta ræðumanns um að tímasetningin sé röng. Ég rökstuddi í máli mínu áðan að ég teldi þvert á móti að þetta væri rétt tímasetning. Ef einhvern tíma hefur verið þörf fyrir að koma fastari fótum undir frumkvöðlastarfsemi í landinu er það nú, þar á meðal ákveðin verkefni sem ríkið á ekki að hafa með höndum. Ég er alls ekki þeirrar skoðunar að opinber rekstur sé óþarfur. Ég tel að opinber rekstur eigi fyllilega rétt á sér á mörgum samfélagslegum sviðum.

Í ræðu minni áðan las ég upp úr bréfi frá kjósanda á Vesturlandi — nú man ég ekki hvort hv. þingmaður var hér í salnum. Þessi kona í Stykkishólmi lýsir því hvernig Íslandspóstur, sem er í eigu ríkisins, er að færa út kvíarnar á hennar svæði. Hún er búin að reka bóka- og ritfangaverslun í langan tíma, verslun sem var stofnuð 1937.

Hún lýsir þessu svona, með leyfi forseta:

„Nú hefur þetta fyrirtæki, Íslandspóstur, ákveðið að auka sitt vöruúrval. Þar er nú til sölu mikið af alls konar skrifstofuvörum, ritföngum, tölvuvörum, jafnvel föndurvara og geisladiskar og smávægilegt sýnist mér af bókum, svo að ekki sé talað um að þeir eru komnir út í samkeppni við ljósmyndastofur og jafnvel prentstofur.“

Það er þetta sem ég er að tala um. Þarna er fyrirtækið Íslandspóstur búið að koma sér upp góðri aðstöðu í Stykkishólmi. Einnig hefur Húsavík verið nefnd sem dæmi og tíu starfsstöðvar um allt land þar sem þeir eru að auka starfsemi sína á þessum sviðum og jafnframt í flutningastarfsemi.

Nú spyr ég hv. þingmann: Finnst honum þetta vera eðlilegt hlutverk ríkisfyrirtækis einmitt á stöðum þar sem mjög viðkvæm þjónusta er til staðar?