136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

Seðlabanki Íslands.

50. mál
[16:48]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skal ekki standa á okkur framsóknarmönnum að við bjóðum ekki fram aðstoð okkar við uppbyggingu á verkefninu sem blasir við enda höfum við ítrekað gert það og það veit hv. þingmaður vel. Samvinnuhugsjónin lifir enn og þótt aðeins hafi komið ryk á hana er vert að taka hana upp nú á tímum.

Við framsóknarmenn fórum í atvinnuuppbyggingu. Hver eru afrek Samfylkingarinnar á því sviði — t.d. varðandi Bakka á Húsavík, hvernig er staðan í þeim málum? Hæstv. iðnaðarráðherra og þingmenn Samfylkingarinnar fullyrtu að það tefðist ekki um einn dag og hver er staðreyndin? Það tefst og atvinnuuppbyggingin líka, (KVM: Af hverju tefst það?) á stað þar sem er atvinnuleysi og fólksflótti, alveg eins og getur gerst á öllu Íslandi, það er niðurstaðan.

Svo finnst mér ansi hart að gagnrýna einkavæðingu á bönkunum þegar þingmenn Samfylkingarinnar hafa lýst því yfir trekk í trekk í ræðupúlti að strax verði farið í að selja bankana á ný. Lýsir hv. þingmaður því hér yfir að hann sé á móti því? Ætlar hv. þingmaður að segja þjóðinni fyrir hönd Samfylkingarinnar að hér verði ríkisbankar næstu tugi ára? Ég vona svo sannarlega ekki.

Hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Þetta hefur verið ágætisumræða og gott að fá að svara þessum rakalausu aðdróttunum í garð framsóknarmanna. Ég ítreka að við framsóknarmenn erum ekki (Forseti hringir.) í ríkisstjórn.