136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

mengunarmælingar við Þingvallavatn.

78. mál
[14:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Á þskj. 78 er fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um mengunarmælingar við Þingvallavatn. Eins og þar kemur fram er verið að vísa í úrskurð umhverfisráðuneytis þar sem gerð var krafa um að Vegagerðin mæli ákomu loftaðborinnar köfnunarefnismengunar áður en framkvæmdir við Gjábakkaveg hefjist og í fimm ár eftir að þeim lýkur.

Það er spurt hvort mælingar séu hafnar, hvernig og hvar þær fari fram og hvort fyrirhugað sé að mæla styrk köfnunarefnissambanda í andrúmslofti í nágrenni við Ólafsdrátt eða aðra þekkta hrygningarstaði í Þingvallavatni sem eru sérlega viðkvæmir fyrir breytingum á næringarbúskap.

Ég legg þessa fyrirspurn fram vegna þess að það hafa verið uppi efasemdir um að skilyrðum ráðuneytisins sé fullnægt. En í úrskurði þess 10. maí 2007 segir, með leyfi forseta:

„Ráðuneytið felst á að aukning í umferðarmagni á svæðinu“ þ.e. við Þingvallavatn, „muni hugsanlega geta leitt til aukningar í loftaðborinni köfnunarefnismengun í Þingvallavatni. Í ljósi hás verndargildis Þingvallavatns og lífríkis þess telur ráðuneytið rétt að framkvæmdaraðila verði skylt að mæla ákomu loftaðborinnar köfnunarefnismengunar áður en framkvæmdir hefjast og í a.m.k. 5 ár eftir að framkvæmdum líkur og gera samanburð við aðrar mælingar sem gerðar hafa verið á svæðinu.“

Efasemdirnar sem uppi hafa verið varðandi framkvæmd þessa skilyrðis ráðuneytisins eru tvenns konar. Annars vegar um það hvaða aðferðum er beitt og því spyr ég um það. Hins vegar vegna staðsetningarinnar sem mælingarnar eiga að fara fram á en það mun vera við Mjóanes sem til að mynda er í sex kílómetra fjarlægð frá Ólafsdrætti sem nefndur er í fyrirspurninni.

Mig langar til þess að vekja athygli á því að þetta mál er angi af þeim áhyggjum sem vatnalíffræðingar undir forustu Péturs M. Jónassonar hafa sett fram um það hvaða áhrif aukin niturákoma hafi á Þingvallavatn og benda á að það geti breyst úr tæru fjallavatni í grængruggugan poll og því miður virðast nýjar rannsóknir frá Náttúrustofu Kópavogs staðfesta að það hafi orðið verulegar breytingar á gagnsæi í vatninu (Forseti hringir.) á síðastliðnum 25 árum.