136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

mælingar á brennisteinsvetni í andrúmslofti.

105. mál
[14:52]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Vegna mælinga í Hveragerði tel ég liggja fyrir, og það kemur auðvitað fram í umsögn Umhverfisstofnunar og í áliti Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar, að koma verði fyrir mælistöðvum. Ég lít svo á að ef af þessum virkjunum verður verði það hluti af starfsleyfisskilyrðum sem þar eru sett. Annað er algjörlega óviðunandi.

Það ber líka að hafa í huga að þrátt fyrir allt mælist brennisteinsmengunin undir þeim mörkum sem talin eru skaðleg heilsu manna og meira að segja langt undir þeim oftast nær, sem betur fer. En auðvitað þarf að hafa mjög gott og glöggt eftirlit með því. Ég vísa líka í fyrirspurn hv. þingmanns til hæstv. iðnaðarráðherra áðan um aðferðir við að hreinsa úr útblæstri sem verða vonandi færar, ég tel að svo sé. Þær mundu í raun leysa þennan vanda. Að sjálfsögðu þarf að mæla víðar og betur, það liggur fyrir, og jafnframt þurfa að vera til samfelldar mælingar.

Að síðustu þakka ég hv. þingmanni aftur fyrir fyrirspurnina og tel að þau mál sem hún hefur tekið upp hér og jafnframt fjallað um í þingsályktunartillögu sinni séu bæði brýn og tímabær. Vonandi fá þau vandaða umfjöllun í umhverfisnefnd og iðnaðarnefnd Alþingis í vetur.