136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

peningamarkaðssjóðir.

[11:00]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi þakka fyrir að viðskiptaráðherra skuli hafa séð sér fært að mæta og svara spurningum en þær eru fjölmargar sem brenna á okkur þingmönnum. Mig langar til þess að beina að honum spurningu varðandi peningamarkaðssjóðina sem við höfum verið að ræða nú að undanförnu í viðskiptanefnd.

Í rauninni litu þeir sem lögðu fjármuni sína í peningamarkaðssjóðina þannig á að um væri að ræða einhvers konar innlán. Þeir fengu þá ráðgjöf í mörgum tilvikum um að þetta væru algjörlega öruggir sjóðir. Nú hafa margir lýst yfir óánægju með að ekki hefur verið rannsakað hvernig farið hefur með gríðarlega fjármuni sem töpuðust við upphaf bankakreppunnar í byrjun október og eins hefur verið kvartað yfir algjörum skorti á upplýsingum frá stjórnvöldum.

Mig langar í fyrsta lagi til þess að spyrja — það er fyrri liðurinn í spurningum mínum: Hefur verið farið fram á rannsókn á því hvert þessir fjármunir runnu í upphafi kreppunnar og hvernig var eignarhlutfallinu háttað, bæði fyrir og sérstaklega núna á eftir að þetta allt saman hefur gerst? Sú spurning er enn þá mjög brýn vegna þess að komið hefur í ljós að nýju bankarnir hafa keypt bréfin úr peningamarkaðssjóðnum og samkvæmt Morgunblaðinu borguðu þeir 200 milljarða fyrir þau bréf. Því spyr ég: Þarf ekki að fara fram umræða um það á hinu háa Alþingi þegar svo gríðarlega miklir fjármunir eru í húfi?

Í öðru lagi: Hvað með jafnræði gagnvart þeim sem eiga í peningamarkaðssjóðum? Þeir sem eiga í peningamarkaðssjóðum (Forseti hringir.) sem ekki voru hjá stóru viðskiptabönkunum hafa ekki fengið greitt (Forseti hringir.) og það er mismunun sem ég tel vera skýrt lagabrot.