136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[11:48]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Ögmundi Jónassyni, fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli sem að mínu viti er það mikilvægasta í samfélagi okkar í dag.

Við frjálslynd fluttum fyrir rúmu ári þingsályktunartillögu þar sem við töluðum um og gerðum kröfu til þess að skipan lánamála hérlendis yrði sambærileg við hin Norðurlöndin. Ljóst er að fyrir afkomu fjölskyldna skiptir atvinna sem tryggir launakjör sem standa undir framfærslu og afborgunum lánum alltaf mestu máli. Lán fyrir fjármunamyndun heimilanna hafa orðið þyngri og þyngri kostnaðarliðir fjölskyldna í landinu.

Vegna aðgerða eða aðgerðaleysis, sem ríkisstjórnin ber fulla ábyrgð á, hefur sú þróun orðið í þjóðfélaginu að eignir fólks brenna upp vegna þess að ekki hefur verið tekið tillit til sjónarmiða okkar frjálslyndra um að hér væru sköpuð og sett eðlileg lánakjör, verðtrygging afnumin og lánakjör sett í samræmi við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Tvennt gerist í samfélagi okkar, afborganir lána hækka og höfuðstóll lána hækkar en eignir fólks rýrna í verði. Í stað þess að stuðlað sé að því að þjóðin hverfi frá fátækt til bjargálna þá fer þjóðin frá bjargálnum til fátæktar. Það er því miður sú hörmulega staðreynd sem við stöndum frammi fyrir.

Hæstv. viðskiptaráðherra talaði um að til stæði að setja ákvæði í lög um greiðsluaðlögun. Það er löngu tímabært að setja slíkt í lög, en af hverju þarf að setja ákvæði í lög um greiðsluaðlögun? Það er til þess, hæstv. iðnaðarráðherra, að þeir sem ekki geta lengur staðið undir að greiða af skuldbindingum sínum fái þvingaða dómstólaleið til að þurfa ekki að greiða meira en þeir mögulega geta. Eitthvað sem hefði átt að vera komið í lög fyrir mörgum árum og er í lögum annars staðar á Norðurlöndunum, en er nú talið eitt helsta bjargráð í kreppunni.

Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er m.a. það að á undanförnum árum höfum við ekki gætt að hagsmunum fjölskyldna og því að rétt væri gefið í þjóðfélaginu. Við höfum hleypt fjármálaöflunum á heimilin í landinu með þeim afleiðingum að þau fóru offari. Hefði verið farið að þeim sanngjörnu og eðlilegu tillögum og hugmyndum sem við höfum fært fram hefði vandinn aldrei skapast.

Verðbólga og verðtrygging stela eignum fólksins í landinu og eru hinn hljóðláti þjófur sem brennir upp eignir þess. Ef við ætlum að halda þessari stefnu áfram getur aldrei orðið almenn velmegun hjá venjulegu fólki í landinu. Við verðum að bregðast við þessum langtímavanda. Nú stöndum við frammi fyrir gríðarlegum vanda, gjörbreytt umhverfi veldur því að útlit er fyrir verulegt atvinnuleysi. Ljóst er að reyna verður að tryggja það á allan hátt að hjól atvinnulífsins geti snúist. Um það eru allir sammála.

Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, ef einhver hefur gleymt því að í dag er liðinn mánuður frá því að neyðarlögin svokölluðu voru sett. Dag eftir dag hefur þjóðin beðið eftir því að ríkisstjórn og Alþingi mótuðu stefnu sem mætti duga þjóðinni í framfarasókn á nýjan leik í bráð og lengd. Ekkert slíkt hefur átt sér stað. Ekkert. Ríkisstjórnin virðist vera hugmyndasnauð og vill halda áfram á sömu leið og kallað hefur yfir okkur efnahagslegu þrengingarnar sem við búum við í dag. Enn eru stýrivextir hækkaðir, nú í 18%, sem aldrei fyrr. Enn er reynt að hafa gjaldmiðilinn á floti og láta hann sveiflast fyrir veðri og vindum á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Enn eru hagsmunir fjölskyldna settir í annan flokk. Engin haldbær bjargráð eru í boði, hvorki fyrir fólk né fyrirtæki. Fólk bíður eftir þeim og spyr: Hvað eru stjórnmálamennirnir að gera? Og setur iðulega alla stjórnmálamenn í sama flokk, sem er rangt.

Á tímum sem þessum hefur komið í ljós hvað Alþingi hefur gert sjálft sig valdalaust. Um það fóru m.a. umræður fram í gær. Af hverju? Vegna þess að ekki eru nauðsynleg skil á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Alþingi hefur ekki skipt neinu máli á þessum áfallatímum. Þingmenn fá ekki upplýsingar og verða jafnvel að taka ákvarðanir á grundvelli þess sem sagt er við þá án þess að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir. Það er ekki ásættanlegt.

Það er vandamál að komast í gegnum erfiðleika og stærra vandamál ef ekki er hægt að eygja betri tíma fram undan. Þjóðin er að sjálfsögðu tilbúin til að taka á sig tímabundin vandamál og færa fórnir en einhvers staðar verður að vera land fram undan til að viðunandi sé. Stóri vandinn er sá að ríkisstjórnin hefur ekki mótað framtíðarstefnu. Ríkisstjórnin hefur heldur ekki markað skammtímastefnu. Ríkisstjórnin stjórnar einfaldlega frá degi til dags. En við svo búið er ekki hægt að láta standa. Strax verður að grípa til raunhæfra aðgerða fyrir venjulegt fólk og fyrirtæki í landinu. Í fyrsta lagi verður að lækka stýrivexti í hámark 5%. Í annan stað verðum við að beita ákveðnum gjaldeyrishöftum tímabundið á meðan tökum verður náð á gjaldeyrismarkaðnum. Í þriðja lagi verður að tengja gjaldmiðilinn við stærra myntkerfi þannig að um stöðugleika og öryggi geti verið að ræða og í fjórða lagi verður að veita atvinnufyrirtækjum fyrirgreiðslu til að framleiðslan geti haldið áfram að tryggja sem mesta atvinnu í landinu. Í fimmta lagi verður að frysta verðtryggð lán og myntlán í að minnsta kosti sex mánuði og endurreikna vísitöluna miðað við raunveruleikann og gefa upp á nýtt einu sinni með sanngjörnum hætti fyrir fólkið í landinu (Forseti hringir.) og afnema verðtrygginguna. Við skulum muna það (Forseti hringir.) að það þjóðfélag sem ekki gætir (Forseti hringir.) réttlætis fær ekki staðist.