136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[12:55]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér stöðu heimilanna í landinu og það er skiljanlegt að sú umræða sé vakin. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hóf hana og talaði m.a. um okurvexti lífeyrissjóða, Íbúðalánasjóðs og fleiri stofnana ef ég man rétt. Þetta var mikill reiðilestur þannig að ég varð bara hálfhræddur, ég verð að segja það. Ég fékk þá tilfinningu, ástandslýsingin var svo hrikaleg. En svo tók hæstv. forsætisráðherra til máls og flutti þjóðinni mjög góða og þarfa ræðu, sem ég þakka honum fyrir, þar sem hann útskýrði fyrir þjóðinni þær aðgerðir verið er að vinna í. Það er verið að semja lög, það er verið að semja reglur um hvað á að taka til bragðs í þessu ástandi. (ÖJ: Lítilþæg Samfylking.) Viltu hætta að gjamma, hv. þingmaður, ég er með orðið, ég kallaði ekki fram í fyrir þér.

Ég vil líka taka undir orð hæstv. viðskiptaráðherra sem lýsti í góðu máli hvaða áform eru uppi til að taka á þeim gríðarlegu vandamálum sem við blasa. Margt fólk sem búið er að segja upp er mjög óttaslegið, margir óttast að missa vinnuna og ríkisstjórnin gerir sér fulla grein fyrir þessari stöðu og hefur margsinnis lýst því yfir í hvaða aðgerðir við erum að fara. Ég hvet fólk til að lesa þær ræður sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra fluttu hér og margir fleiri. Ég vil líka þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir gott og jákvætt innlegg hennar í umræðu samfélagsins þar sem ríkir ótti og kvíði.

Það er eitt sem mig langar líka til að bæta við, hæstv. forseti. Það hefur orðið mikil breyting á gengi krónunnar. Ég vil benda á að í því geta fólgist ákveðin tækifæri og ég hvet þau fyrirtæki sem flutt hafa starfsemi sína úr landi vegna þess hvernig gengið var statt að koma aftur, ef þau mögulega geta, með starfsemi inn í landið til að auka hér atvinnu. Ég hvet alla iðnaðarmenn á Íslandi sem eru dugandi og góðir menn til að athuga möguleika á því að framleiða vöru bæði til innanlandsmarkaðar vegna gengisstöðunnar og líka til útflutnings.