136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

upplýsingagjöf um aðgerðir í efnahagsmálum.

[15:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tel óskynsamlegt af hæstv. forsætisráðherra að taka enn svo til orða eins og hann gerði hér í sambandi við mögulegar kosningar. Þó að hann segði að vísu að að svo stöddu væru engin áform um að flýta kosningum, þá held ég að það sé veruleikafirring að horfast ekki í augu við að þetta mun aldrei ganga án kosninga innan skamms.

Í öðru lagi fögnum við því að sjálfsögðu að vilji standi til þess að setja rannsókn á þessum atburðum öllum í farveg en tíminn til gera það er mjög naumur. Við höfum áður tekið það upp hér og ég hef áður lagt á það áherslu og ég vildi helst að í þessari viku sjáist það í verki í formi frumvarpa á borðum þingmanna þannig að þjóðin geti þó a.m.k. treyst því.

Í þriðja lagi varðandi upplýsingagjöf. Ferlið er allt of lokað, hæstv. forsætisráðherra. Það sem hefur gerst í skjóli skilanefnda og tímabundinna bankaráða er of lokað. Þaðan leka út fréttir í fjölmiðla, jafnvel frá stjórnvöldum sjálfum. Þetta er ekki nógu gott og þjóðin þolir ekki þetta ástand lengur. Hæstv. forsætisráðherra hlýtur þó a.m.k. að skynja sína þjóðarsál þannig að það stefnir í óefni og ríkisstjórnin verður að horfast í augu við það.