136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

Búðarhálsvirkjun.

[15:29]
Horfa

Rósa Guðbjartsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svör hans. Jú, það er ljóst að lánsfjármagn er ekki fyrir hendi um þessar mundir í landinu, það vitum við svo sannarlega. En forstjóri Landsvirkjunar hefur meðfram þessari ákvörðun sagt að hann telji að skoða mætti þann möguleika að ræða við lífeyrissjóðina um hugsanlega fjármögnun og tók bæjarstjórinn í Kópavogi reyndar í sama streng í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann sagði að það gæti verið mjög verðugt verkefni fyrir lífeyrissjóðina að skapa slík skilyrði og koma inn með fjármuni til atvinnuuppbyggingar eins og í því tilfelli sem hér er um ræðir, til virkjanaframkvæmda.

Það væri kannski gaman að heyra viðhorf hæstv. iðnaðarráðherra til þess möguleika, hvort það sé ekki athyglisverð leið sem mundi leggja mikilvæg lóð á vogarskálarnar í þessum efnum.