136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[16:49]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er hjartanlega ósammála hv. þingmanni. Ég tel að þeir sem reka útgerð hér á landi séu fullfærir um að ákveða það og ég tel þetta enga kjaraskerðingu fyrir sjómenn. Langt frá því. Þú mátt hlæja að því, hv. þingmaður, en ég tel að þetta verði til bóta þegar fram í sækir.

Hvers væntum við? Við væntum náttúrlega að þorskkvótinn vaxi á komandi árum. Atvinnugreinin sætir einelti af þeim sem eru á móti kvótakerfinu. Útgerðin verður fyrir stanslausum árásum. (GMJ: En mannréttindanefnd?)

Mér finnst mönnum ekki vera viðbjargandi að gagnrýna kvótakerfið svona eins og þeir gera. Mér finnst það ekki viðeigandi. Við höfum komist áfram síðan kvótakerfið var sett á og þurft að standa í ströngu. Við höfum þurft að skera niður kvótann ár eftir ár. En hafa útgerðirnar ekki þurft að aðlaga sig breyttum aðstæðum? Ég veit ekki betur. Þess vegna finnst mér frumvarpið sem hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur fram mjög gott og að það muni koma útgerðinni til góða í framtíðinni.