136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[16:51]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Örfá orð um frumvarpið sem er til umfjöllunar og gengur út á að heimila flutning aflamarks botnfisks frá einu fiskveiðiári til þess næsta og að aukning verði í þeim efnum úr 20% upp í 33% og enn fremur verði heimilt að veiða 5% umfram aflamark í humri á einu fiskveiðiári sem dregst þá frá heimildum næsta árs á eftir.

Þarna er gefið ákveðið svigrúm í útgerðinni og ég get vel sætt mig við það og tel það í raun vera jákvætt. Ég hef að sjálfsögðu ákveðinn fyrirvara um að þetta mál verði skoðað betur í nefndinni og þá verði farið yfir þau álitaefni sem hér hafa komið fram, t.d. í máli hv. þm. Grétars Mars Jónssonar, en hann á sæti í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og mun eflaust leita eftir svörum og rökstuðningi í sambandi við atriðin sem hann fellir sig ekki við í frumvarpinu.

Ég tel eins og síðasti hv. ræðumaður að mikilvægt sé að horfa á útgerðina og fiskveiðar eins og hvern annan atvinnuveg sem þurfi að geta borið sig. Nú drögum við, eins og allir þekkja, mikið saman í þorskveiðum og að mati okkar framsóknarmanna kannski óþarflega mikið miðað við ástandið. En engu að síður erum við komin þetta langt niður og ekki endilega útlit fyrir auknar þorskveiðar þó að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi ekki alveg útilokað það. Nýlega fengum við í nefndinni upplýsingar um að ekki eru líkur á að haustrallið gefi vísbendingar um að mælt verði með auknum veiðum. Þá er spurning um hvað gerist í næsta ralli sem verður í mars og kannski einhver örlítil von um að það komi betur út, en við verðum að sjá til með það.

Sjávarútvegsfyrirtæki sem starfa fyrst og fremst á landinu eru í raun miklu frekar matvælaframleiðslufyrirtæki en hefðbundin fiskveiði- eða sjávarútvegsfyrirtæki. Mörg þeirra eru með alla keðjuna frá veiðum og til markaðssetningar á fiski í útlöndum. Að sjálfsögðu verða þau að geta haft ákveðið svigrúm í veiðum til að geta staðist kröfur og samninga sem þau hafa undirritað, til að skaffa og sjá ákveðnum fyrirtækjum fyrir hráefni eða réttara sagt vöru, þar sem í mörgum tilfellum er nú um mjög unna vöru að ræða. Fljótt á litið finnst mér ástæða til að styðja málið og tel að það verði niðurstaða okkar framsóknarmanna.