136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Það er ekki öll vitleysan eins hvað varðar stöðu mála þessa dagana. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni að fyrirhugaðar loftrýmisvarnir Breta eru hluti af áætlun NATO sem við Íslendingar höfum frumkvæði að. En það er vægast sagt óheppilegt að Bretarnir komi hingað núna um þessar mundir og að þeir skuli sýna þann tvískinnung að setja íslenskt fyrirtæki á lista yfir hryðjuverkamenn og ætla svo að koma og sinna loftrýmisgæslu fyrir sömu aðila. Það er náttúrlega alveg ótrúlegur tvískinnungur.

Ég hafði satt best að segja haft þá von í brjósti að Bretarnir sjálfir tækju þá ákvörðun að koma ekki hingað við þessar aðstæður. Það liggur svo sem ekki fyrir en allt útlit er fyrir að þeir ætli sér að koma og sinna loftrýmisgæslu þjóðar sem þeir hafa sjálfir sett á lista yfir hryðjuverkamenn og það er alveg með ólíkindum. Ég lýsi þeirri skoðun minni að ég tel að Bretar eigi ekki að koma hingað núna og ég tel að við eigum að ræða það við NATO fyrst og fremst. Þetta er auðvitað „prógramm“ á vegum NATO.

Það vekur athygli, hæstv. forseti, að hæstv. iðnaðarráðherra sem var hér við upphaf umræðunnar og hefur sagt ýmislegt í málinu, gekk út án þess að taka þátt í umræðunni. Ég hefði gjarnan viljað heyra hæstv. iðnaðarráðherra taka þátt í umræðunni á Alþingi þó að hann hafi sagt ýmislegt í fjölmiðlum um málið. En það er eins og annað hjá þessari blessaðri hæstv. ríkisstjórn, menn vita varla hvað þeir tala um.