136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[16:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það fór eins og mig grunaði að þessir 200 milljarðar kr. sem við höfum heyrt um og vitum að hefur verið kostað til þess að bæta stöðu peningamarkaðssjóðanna, að hv. þingmaður viðurkennir að hafa ekki hugmynd um hver greiðir það en ber það samt upp að það séu skattgreiðendur. Að því er ég best veit er það greitt af eignasafni allra þriggja bankanna. Hafi svo verið á ég erfitt með að sjá að hægt sé að líta svo á að ríkissjóður eigi að þurfa að greiða það sérstaklega. Mér finnst mikilvægt að menn séu með réttar upplýsingar, ef hv. þingmaður veit betur og veit að ríkissjóður á að greiða þetta (Gripið fram í.) þá er það eitthvað sem ég hef ekki fengið staðfest. (Gripið fram í.)

Varðandi þessar tilvitnanir sem ég var með: Það var skjalfest að ljóst var að Icesave væri að sliga þjóðfélagið. Mér finnst mjög mikilvægt þegar menn taka svona til orða að þeir geti staðið við orðin. Það er nóg af yfirboðum í alla vega yfirlýsingum í þingsal um ástandið, (Gripið fram í.) yfirlýsingar sem auka tortryggni, yfirlýsingar sem valda ótta og óvissu (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Gefa ræðumanni hljóð.)

Ég biðst undan því að þingmenn eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir komist upp með að kalla þá sem hafa verið að vinna trúnaðarstörf á vegum ráðuneyta og embættismenn í skilanefndum — að kalla þá lið sem vinni einhver óheillaverk í bakherbergjum, herbergjum sem þurfi að hleypa lofti inn í. Mér finnst þetta ekki sæmandi umræða og biðst undan því að sitja undir þessu hér í þingsal, takk.