136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[17:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ljóst að í þeim breytingum á lögum sem hér eru lagðar til er ekki tekið fram hversu langan tíma þetta muni gilda. Það er talað um til skamms tíma einfaldlega vegna þess að Íbúðalánasjóður er ekki stofnaður sem leigustofnun heldur fyrst og fremst sem lánastofnun til íbúðarhúsnæðis. Það er reiknað með því að sjóðurinn geti sjálfur sett sér reglur. En það er jafnframt tekið fram að félögin, þ.e. sjóðurinn muni örugglega leita til þeirra stofnana eða þeirra fyrirtækja sem hafa verið á leigumarkaði til að sjá um umsýslu þannig að ekki þurfi að byggja upp stóra umsýslu fyrir Íbúðalánasjóðinn varðandi útleigu.

En alls staðar þar sem verið er að setja inn tímabundin ákvæði varðandi þær lausnir sem hér eru til umræðu þá er það bara staðfesting á því að við þurfum á hverjum tíma að endurmeta þetta mjög hratt. Við vitum ekki hvert ástandið verður eftir tvo, þrjá eða fjóra mánuði. Það getur orðið miklu verra. Það getur orðið miklu skárra fljótlega, eða um mitt næsta ár. Þess vegna er í nánast í öllum þeim tillögum sem hér koma fram sett inn ákvæði um að þetta sé metið eftir skamman tíma. Það þýðir ekkert að fella út, þvert á móti tel ég að menn verði að meta það þegar þar að kemur hvort markaðurinn sé orðinn eðlilegur og hvort fólk geti bjargað sér án þess að sjóðurinn sé milliliður.

Það er svona megininntakið og meginskýringin á þessum tímasetningum en að öðru leyti lít ég ekki þannig á að athugasemdir hv. þingmanns hafi verið fyrirspurn eða athugasemd heldur hans eigin bollaleggingar og get tekið undir margt af því sem hann sagði.