136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

líkantilraunir vegna stórskipabryggju í Vestmannaeyjum.

42. mál
[18:46]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeim umræðum sem orðið hafa um þessa tillögu og ekki síst fagna ég ummælum hæstv. iðnaðarráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, sem voru mjög jákvæð og á rökum byggð. Það er líka skemmtilegt að heyra hæstv. iðnaðarráðherra fjalla um orður og titla og má kannski setja það í hnotskurn með tengingu við Vestmannaeyjar og vitna í eitt af ljóðum Ása í Bæ, með leyfi virðulegs forseta, þar sem Ási segir í brag um Sævar í Gröf:

Látum þá bítast um arð og auð

eignast banka og hrað

gleðjast við orður og gáfnafrauð,

við gefum skít í það.

Þetta er góð pólitík að mínu mati þó að allt sé gott í hófi.

Það er mikilvægt að lögð sé áhersla á það sem ég vék að í upphafsorðum mínum, að gerð sé úttekt á þessum þremur valkostum. Við erum allir sammála um að æskilegast væri að ná aðstöðu norðan við Eiðið en það verður að ráðast af því hvað kostar að gera það og þarf að meta hvort unnt er að fara í svona framkvæmdir eða ekki.

Það kann vel að vera að það yrði til að mynda helmingi ódýrara að gera ferjulægi við Skansfjöruna en Eiðið. Það væri hægt að gera þar tveggja skipa lægi á meðan sama aðstaða fyrir eitt skip kostaði það sama við Eiðið. Það eru hlutir sem menn þurfa að meta og þess vegna er verið að óska eftir líkanaprófi frá Siglingastofnun sem getur og kann að meta þessa hluti.

Menn átta sig ekki alltaf á því að í stórskipahöfnum má meðalölduhreyfingin ekki fara upp fyrir 26 sentimetra eða þar um bil. Það er ekki mikil hreyfing. Þess vegna þurfa mannvirkin að vera gerð þannig að oft er flóknara að byggja þau upp en menn ætla í fyrstu. Menn sjá fyrir sér að ölduhreyfingin geti verið miklu meiri án þess að vera til vansa fyrir slíka höfn en þannig eru alþjóðareglurnar og við þurfum að hugsa um það.

Það er alveg rétt sem fram kom hjá hæstv. iðnaðarráðherra að það er sorglegt að stærstu skemmtiferðaskip heimsins skuli sigla fram hjá paradís eins og Vestmannaeyjar eru fyrir ferðaþjónustuna þar sem er bæði lifandi náttúra og eldfjallasvæði sem er eins og kjörið safn á alþjóðavísu þótt víðar væri leitað, eins og hv. þm. Guðni Ágústsson hefur stundum sagt.

En þetta eru möguleikar sem við eigum að rækta og sækja í því að í þessu felst mikil tekjuöflun og atvinnusköpun. Við verðum að halda til haga aðgengi að þeim perlum sem við eigum. Margt eigum við ógert í þeim efnum. Án þess að það komi þessu máli beinlínis við vil ég minna á Þríhnúkagíg sem situr enn óbættur hjá garði. Stærsti hellir í heimi sem ekki er einu sinni aðgengi að enn þá fyrir ferðamenn þó að áratugir séu síðan hann fannst. Þar er slælega að verki staðið af hálfu okkar Íslendinga og við þurfum að bæta úr því.

Varðandi stórskipabryggjuna eru rökin fyrst og fremst þau að Vestmannaeyjar eru ein öflugasta útflutningshöfn landsins og við þurfum að geta sinnt þeirri þjónustu við breyttar aðstæður. Búbótin felst í auknum möguleikum í ferðaþjónustu með heimsóknum stærstu farþegaskipa heims sem hafa stóraukist norður í höf á undanförnum árum.