136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[18:45]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég beið eiginlega eftir þessu hefðbundna dissi á þingmenn Vinstri grænna eftir ræðuflutninginn. En hér situr hnípinn þingheimur í nokkrum vanda. Eftir að hafa hlustað ítarlega á umræður tel ég að verr sé af stað farið en heima setið í þessum efnum og enn sé allt á huldu um tilgang handarbaksvinnubragðanna. Talað er um að verið sé að reyna að hámarka virði eigna í bönkunum. Áðan var gefið í skyn að það væri eitthvað sem við þingmenn Vinstri grænna vildum alls ekki — ætli við séum ekki á móti þjóðarhag eða einhverju slíku, hagsældinni eða einhverju, ég veit það ekki.

Hv. þm. Atli Gíslason hefur dregið upp að þessi handarbaksvinnubrögð. Þessi bútasaumur, geti hæglega endað sem vopnabúr í höndum kröfuhafa og orðið tilefni endalausra málaferla. Greiðslustöðvunin sem þetta á að tryggja — sem er vilji meiri hlutans hefði ég haldið — standist jafnvel ekki vegna þess að menn hafa ekki gefið sér tíma til að vinna heimavinnuna sína og verið svo hrokafullir að þeir hafa algerlega neitað að hlusta, ekki bara á þessa vondu, vitlausu þingmenn Vinstri grænna heldur líka á réttarfarsnefnd. Þingið er svo illa sett að það hefur ekki einu sinni vilja til að taka mál til umræðu í allsherjarnefnd þingsins þegar óskað er eftir því sérstaklega. Því er ekki einu sinni ansað. Hv. formaður allsherjarnefndar ansar ekki beiðni um slíkt. (Gripið fram í: Ég hef ekki fengið ...) Þá er eitthvað að tölvupóstfangi. (Gripið fram í.) Já, athyglisvert er ef tölvupóstur innan þingsins berst ekki með réttum hætti. Ítrekað hefur verið tekið fram í umræðunni að óskað hafi verið eftir því að allsherjarnefnd væri kölluð saman. Það er líka ósk þegar hún er borin fram úr ræðustól, hv. formaður allsherjarnefndar.

Ég segi aftur að menn vita ekki hver tilgangurinn með aðgerðunum er, þessu ónýta tæki sem meiri hlutinn virðist vera að smíða sér. Ýmislegt heyrist, eins og hv. þm. Atli Gíslason sagði, um af hverju menn eru að þessu. Eðlilegt er að svo sé þegar ekki er gengið hreint til verks og sagt hver stefnan er eða hvað menn vilja. Þegar menn fela alltaf aðgerðir sínar og ráðagerðir fyrir þingi og þjóð, þá gýs upp tortryggni og spurningar og sögur fara af stað.

Ég hef töluverðar áhyggjur af einu í málinu og ætla að leyfa mér að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson, sem er löglærður og er, auk þess að sitja í hv. viðskiptanefnd, formaður allsherjarnefndar, hvernig menn hugsa sér riftun á gjörningum sem fram hafa farið frá því að skilanefndirnar tóku við bönkunum, en riftunarfrestur í gjaldþroti til skipta nær 12 mánuði aftur í tímann. Hvernig verður farið með þau mál sem hafa verið á borðum skilanefnda, fjármálaeftirlits og stjórnenda nýju bankanna, hvernig koma riftanir að þeim? Er mögulegt að rifta þeim gjörningum?

Ég skal nefna konkret dæmi. Ég hef lagt fram fyrirspurn, sem ég reikna með að verði dreift, um peningamarkaðssjóðina og vakti athygli á því við 2. umr. að með kaupum á bréfum úr peningamarkaðssjóðum gömlu bankanna þriggja var sérhverju mannsbarni á Íslandi sendur reikningur upp á 625 þús. kr. 200 milljarðar kr. voru notaðir í það sem margir telja og fullyrða að séu verðlaus bréf. Er hægt að rifta þeim gjörningi og hvenær þá? Þegar 24 mánaða greiðslustöðvun lýkur? Hvenær eiga frestir að byrja að rúlla gagnvart þessu? Þetta held ég að skipti miklu máli vegna þess að því miður var ekki allt gert óvefengjanlega þegar ríkið tók við bönkunum. Ég held að þeir sem eru í skilanefndum og í forustu fyrir þessu átti sig á að gerðir þeirra geti verið riftanlegar en þeir eru ekki ábyrgir. Þeir eru ábyrgðarlausir, sá er munurinn, og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að átta sig á því hvaða heimildir eru til riftunar á gjörningunum sem þarna hafa farið fram í dag.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Atla Gíslasonar og skora á menn að taka góðu boði hans, fresta umræðunni og vinna þetta betur, taka helgina í það með réttarfarsnefnd að gera þetta þannig að það standist. Það er engum greiði gerður með því. Við getum deilt um efnislega niðurstöðu en þurfum við að deila um vinnubrögð og að menn vinni gegn sjálfum sér í því sem þeir leggja fyrir? Ég vil taka undir þá beiðni að umræðum verði frestað og málinu vísað til frekari umræðu og hv. allsherjarnefndar um helgina.