136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

samkomulag við IMF.

[15:54]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Í DV í dag er birt fyrsta og síðasta blaðsíða í bréfi íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í tengslum við fyrirhugaða lánveitingu sjóðsins og annarra til Íslands og á vefsíðu DV hefur skjalið nú verið birt í heild sinni. Það vekur athygli að fjölmiðlar skuli komnir með skjalið í hendur á sama tíma og ríkisstjórnin hefur haldið þingi og þjóð í fullkominni þoku um baggana sem hún er að bjástra við að binda þjóðinni til langrar framtíðar. Skjalið er undirritað af fjármálaráðherra og aðalbankastjóra Seðlabankans, þeim Árna Mathiesen og Davíð Oddssyni, sem báðir starfa í umboði og í skjóli þingmanna Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Það urðu talsverðar umræður þegar Seðlabankinn ákvað að hækka stýrivexti um 50%, úr 12% í 18%. Þá sögðu ráðherrar að sú hækkun væri ekki skilyrði eða ákvörðun frá IMF og héldu því jafnvel fram að ekkert ákvæði væri í samningnum við IMF um vaxtahækkun. Nú kemur á daginn að allt voru þetta lygimál. Ríkisstjórnin hefur beitt þing og þjóð blekkingum. Hún segir jafnframt að vaxtahækkunin verði væntanlega skammvinn en nú eru liðnar þrjár vikur frá því að vextirnir voru skrúfaðir upp í 18% og samkomulagið við IMF gerir bersýnilega ráð fyrir enn frekari vaxtahækkun. Ríkisstjórnin hefur orðið uppvís að mörgum mismunandi útgáfum að sannleikanum í þessu máli og hefur augljóslega verið að fela eigin aðkomu að málinu, firra sig ábyrgð og varpa henni á aðra.

Það er alveg ljóst, virðulegur forseti, að vaxtahækkanirnar eru eins konar kverkatak á fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu. Fyrirtækin og fjölskyldurnar þola ekki þessa háu vexti. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvenær verða skjölin sem gengið hafa milli íslenskra stjórnvalda og IMF og einstakra ríkja vegna efnahagsaðgerða, þar með talin viljayfirlýsingin við Holland, birt opinberlega? Hversu langvinn verður hin skammvinna vaxtahækkun? Hversu hátt munu vextirnir fara umfram þau 18% sem nú þegar eru komin fram? Hafa stjórnvöld fallist á aðra skilmála gagnvart IMF en þá sem getið er um í 26 punkta plagginu sem hefur að hluta til verið birt í fjölmiðlum?