136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

einkavæðing í heilbrigðisþjónustu.

[10:53]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Fyrir þinginu síðastliðinn vetur lágu tvö mál. Annars vegar mál frá þingmönnum Vinstri grænna um athugun á afleiðingum einkavæðingarinnar, og ekkert var unnið með það í nefnd og ekkert gert með það. Hins vegar mál frá hv. þm. Ástu Möller eins og hér er bent á frá Verslunarráðinu um húrrahróp yfir einkavæðingunni og það átti að afgreiðast úr nefnd. Við mótmæltum því að þessi mál fengju ekki sams konar meðferð.

Herra forseti. Ég á örstutt eftir af ræðutíma mínum. Upplýst hefur verið að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert lært af hruni markaðshyggjunnar og Samfylkingin ekki heldur. Það er einfaldlega rangt, sem hér hefur verið haldið fram, að þau úrræði sem voru á Heilsuverndarstöðinni, fyrir langlegusjúklinga, hvíldarúrræði og skammtímavistun, hafi ekki verið dýrari en var á Droplaugarstöðum sem er í um 50 metra fjarlægð. Það er bara rangt.

Um er að ræða 50 sjúklinga og hv. formaður heilbrigðisnefndar segir að létt hafi verið á Landspítalanum með því að flytja þá inn í Heilsuverndarstöðina. Ég spyr: Hvar eru þessir sjúklingar í dag? Hvar eru þeir í dag? Þrír fengu inni á Grund, aðrir voru sendir heim og einhverjir eru á biðlista hjá öldrunardeildinni á Landakoti.

Herra forseti. Það er þannig að opinberir aðilar fara ekki svo glatt á hausinn og senda skjólstæðinga sína heim. En einkaaðilar, sem eru í rekstri til þess eins að ná hagnaði, arði, út úr starfseminni, geta auðveldlega farið á hausinn. Við sjáum það út um allt þessa dagana. Við viljum vara við því að frjálshyggjustefnan, sem drepið hefur bankakerfið, bitni á sjúkum og öldruðum. Við skulum halda lífinu í fólkinu í landinu og stoppa þessa ríkisstjórn.